Home / Fréttir / Sænski varnarmálaráðherrann segir Rússa ögra með skotflaugum í Kaliningrad

Sænski varnarmálaráðherrann segir Rússa ögra með skotflaugum í Kaliningrad

Peter Hultqvist
Peter Hultqvist

Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, segir að ákvörðun Rússa um að senda skotflaugar fyrir kjarnorkuvopn til Kaliningrad feli í sér „ögrandi boðskap“.

Ráðherrann sagði þetta við sænsku fréttastofuna TT mánudaginn 10. október en í lok fyrri viku bárust fréttir um flutning á Iskander-skotflaugum frá Rússlandi til hólmlendurnar Kaliningrad við Eystrasalt, milli Póllands og Litháens.

Ríkisstjórn Svíþjóðar bárust fyrir fram boð um að Rússar ætluðu að flytja Iskander-flaugar til Kaliningrad vegna heræfinga sinna þar. Dagens Nyheter segir að flaugarnar hafi verið fluttar þangað föstudaginn 7. október í skjóli rússneskra orrustuþotna sem brutu gegn lofthelgi Finnlands.

Með flaugunum er unnt að senda sprengjur til Berlínar.

„Við lítum á þetta sem ögrandi boðskap sem skerpir ástandið á öllu þessu svæði. Einkum þar sem um er að ræða flaugar sem geta borið kjarnorkuvopn, við það kemur sérstök vídd til sögunnar,“ segir Peter Hultqvist og bætir við:

„Það liggur í augum uppi að líta verður á þetta sem aðgerð gegn NATO og vígbúnaði í Eystrasaltslöndunum og Póllandi. Í því sambandi ber að hafa í huga að NATO heldur úti herafla á þessum slóðum vegna óska frá löndunum sem eiga hlut að máli. Óskirnar má hins vegar rekja til þess að Krímskagi var innlimaður [í Rússland] og að hernaðarástand ríkir í Úkraínu auk þess sem Rússar hafa stóraukið heræfingar sínar.“

Jafnaðarmaðurinn Peter Hultqvist fær stuðning frá Hans Wallmark sem er talsmaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Moderaterna. Hann segir að Rússar stundi ögranir en NATO-ríkin og önnur ríki, þar á meðal Svíþjóð, láti sér nægja að bregðast við þessum ögrunum. Ástandið versni til mikilla muna með tilkomu Iskander-flauganna í Kaliningrad og það sé fyrir löngu tímabært að endurmeta hættuna sem steðji að Svíum.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …