
Margot Wallström, utanríkisráðherra Svía, sat fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, í Moskvu þriðjudaginn 21. febrúar. Segir í fréttum að tilgangur fundarins hafi verið að draga úr spennunni í samskiptum sænskra og rússneskra stjórnvalda.
Á blaðamannafundi sagði Lavrov að hernaðarlegt hlutleysi Svía og Finna skipti höfuðmáli fyrir öryggi á Eystrasaltssvæðinu. Hann sagði:
„Við höfum ítrekað hve mikils við metum stefnu Svía og einnig Finna sem standa utan bandalaga í hernaðarmálum. Við lítum á hana sem mikilvægan lið í svæðisbundnum stöðugleika á Eystrasaltssvæðinu og almennt í Evrópu.“
Wallström sagði: „Staða Svía utan hernaðarbandalaga er staðföst.“
Sænski utanríkisráðherrann hitti einnig fulltrúa mannréttindasamtaka á meðan hún dvaldist í Moskvu. Þar var hún meðal annars spurð um nýlegar lagabreytingar í Rússlandi þar sem aflétt er refsiákvæðum vegna heimilisofbeldis. Má þar nefna að „hóflegt“ ofbeldi innan fjölskyldu flokkað sem stjórnsýslumál en ekki sakamál.
„Þessi breyting skapar vandamál vegna mikils fjölda fórnarlamba hvert ár,“ sagði Wallström við sænsku fréttastofuna TT eftir fundinn. Hún sagðist vilja miðla Rússum af reynslu Svía við að minnka ofbeldi gegn konum.