
Sænska herstjórnin sendi frá sér skýrslu föstudaginn 23. febrúar með rökstuðningi fyrir því að fjölga yrði í hernum frá 50.000 manns núna í 120.000 manns árið 2035. Þá er talið að auka þurfi árleg útgjöld til varnarmála úr 56 milljörðum sænskra króna nú í 115 milljarða króna árið 2035.
Skýrsla af þessu tagi er gefin úr fimmta hvert ár og er hún höfð til hliðsjónar þegar stjórnmálamenn taka ákvarðanir um málefni hersins.
Í skýrslunni segir meðal annars:
„Ýmis rök eru fyrir nauðsyn þess að þróa og efla hervarnirnar. Þegar á heildina er litið er geópólitíska staðan ófyrirsjáanleg. Með aðgerðum sínum í Georgíu og Úkraínu hafa Rússar sýnt að þeir hika ekki við að beita hervaldi. Þeir hafa einnig áform um að efla hernaðarmátt sinn eftir 2020. Þar að auki er samfélagið allt verr í stakk búið til að þola álag og það kemur í heild til álita sem árásarandlag.“
Undanfarin ár hafa Svíar stigið ýmis skref til að efla varnir sínar og má þar til dæmis nefna að herinn hefur nú fasta viðveru á Gotlandi og herskylda er komin til sögunnar að nýju.
Í skýrslunni segir einnig að fjölga þurfi stórfylkjum landhersins, korvettum, kafbátum og orrustuvélum auk þess sem gera verði átak til að bæta sænska netnjósnakerfið.
Heimild: Local.se