Home / Fréttir / Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson. forsætisráðherra Svía.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á friðartímum en annað kæmi til álita í stríði.

Í júní greiðir sænska þingið atkvæði um samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál, Defence Cooperation Agreement (DCA). Með samningnum fær Bandaríkjaher aðgang að herstöðvum í Svíþjóð og hernum verður heimilað að geyma þar tæki og vopn.

Í aðdraganda afgreiðslu samningsins á sænska þinginu hafa ýmis samtök hvatt til þess að sett verði ákvæði í samninginn um að kjarnavopn verði ekki leyfð á sænsku landi.

Afstaða ríkisstjórnarinnar er að ekki sé þörf á neinu slíku ákvæði vegna þess að „breið samstaða sé um kjarnavopn“ í Svíþjóð fyrir utan ákvörðun þingsins um að á friðartímum séu kjarnavopn bönnuð í Svíþjóð.

Mánudaginn 13. maí sagði Kristersson að önnur sjónarmið kæmu til álita í stríði.

Forsætisráðherrann sagði í samtali við sænska ríkisútvarpið að allt annað gilti um stríðstíma, þá myndi afstaðan ráðast alfarið af því sem gerðist.

„Fari allt á versta veg verða lýðræðisríki í okkar heimshluta að lokum að geta varið sig gegn ríkjum sem gætu ógnað okkar með kjarnavopnum.“

Hann áréttaði að Svíar myndu ákveða hvort kjarnavopn yrðu í landi þeirra, ekki Bandaríkjamenn.

„Svíar taka ákvarðanir um sænskt land,“ sagði hann.

Þá lagði Kristersson áherslu á að tilgangurinn með aðild Svía að NATO og varna Svíþjóðar væri að hættuástand sem þetta skapaðist ekki. Rússar hefðu ekki ráðist á Úkraínu hefði landið verið í NATO.

Ulf Kristersson er úr mið-hægriflokknum, Moderaterna. Jafnaðarmenn voru við völd í maí 2022 þegar sænska ríkisstjórnin sendi aðildarumsókn sína til NATO. Þá sögðust þeir ætla að lýsa einhliða fyrirvara gegn beitingu kjarnavopna og varanlegum erlendum herafla á sænsku landi.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …