Home / Fréttir / Sænski forsætisráðherrann staðfestir tengsl glæpa og innflytjenda

Sænski forsætisráðherrann staðfestir tengsl glæpa og innflytjenda

Mats Löfving, aðstoðar-ríkislögreglustjóri Svíþjóðar.
Mats Löfving, aðstoðar-ríkislögreglustjóri Svíþjóðar.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svía, virðist hafa breytt um afstöðu til tengsla milli innflytjenda og afbrota.

Jafnaðarmaðurinn Stefan Löfven sat miðvikudaginn 9. september fyrir svörum í Aktuellt-þættinum í sænska ríkissjónvarpinu SVT. Þar var hann spurður hvort mikill straumur innflytjenda ýtti undir fjölgun afbrota.

„Sé innflytjendamálum þannig háttað að aðlögun nýbúa er ekki viðunandi er ljóst að félagsleg spenna myndast,“ sagði Löfven. „Það er ekki gott. Og þetta hefur gerst hjá okkur.“

Löfven hefur ekki áður talað á þennan veg um vanda stjórnar sinnar við að laga innflytjendur að sænsku samfélagi.

Í sjónvarpsþættinum lagði forsætisráðherrann áherslu á að ekki ætti að tengja afbrot við einstaklinga af einum sérstökum uppruna, litarhætti eða trú. Fréttaskýrendur benda á að þetta sé ný afstaða af hálfu sænskra jafnaðarmanna þegar rætt er um glæpagengin sem hrella Svía. Til þessa hefur Jafnaðarmannaflokkurinn talið að engin tengsl séu á milli innflytjenda og afbrota.

Vegna ýmissa ofbeldisverka undanfarið hefur hiti hlaupið í umræður í Svíþjóð um gengjaglæpi. Snemma í ágúst féll til dæmis saklaus 12 ára stúlka í skotbardaga gengja í úthverfi Stokkhólms,

Laugardaginn 5. september sagði yfirmaður í sænsku lögreglunni, Mats Löfving, aðstoðar-ríkislögreglustjóri, í samtali við sænska útvarpsstöð að það væru fjörutíu „glæpafjölskyldur“ innflytjenda í landinu.

Sænska ríkisstjórnin vinnur nú að endurskoðun útlendingalaganna. Löfven vill til dæmis herða ákvæði um veitingu búsetuleyfa.

Sumir óttast að vegna orða forsætisráðherrans verði stjórnarkreppa í landinu þar sem græningjar, samstarfsmenn jafnaðarmanna í ríkisstjórninni, eru allt annarrar skoðunar í útlendingamálum en forsætisráðherrann. Græningjar eiga fimm af 23 ráðherrum í ríkisstjórninni.

Fyrr í sumar hreyfði Löfven tillögu um að takmarka fjölda flóttamanna sem kæmi til Svíþjóðar. Hann hvarf frá hugmyndinni vegna andstöðu græningja.

Dagblaðið Dagens Nyheter birti nýlega niðurstöðu Gallup-könnunar sem sýndi að 54% Svía vilja nýja ríkisstjórn. Nærri helmingur Moderatarna (mið-hægri) og Kristilegra demókrata vilja stjórn með Svíþjóðar-demókrötunum sem gagnrýnda mjög núverandi stefnu í útlendingamálum. Til þessa hafa allir flokkar hafnað samstarfi við Svíþjóðar-demókratana.

Lýsing lögreglustjórans

Mats Löfving, aðstoðar-ríkislögreglustjóri, sagði að glæpafjölskyldurnar 40 sem starfa nú í Svíþjóð hefðu flust til landsins í þeim tilgangi að ná völdum, græða fé og færa út glæpastarfsemi sína.

„Þessar fjölskyldur hafa komið í þeim eina tilgangi til Svíþjóðar að skipuleggja glæpi. Þær vinna að því að auka völd sín, þær búa yfir miklu ofbeldisafli og þær vilja græða peninga. Og þetta gera þær í krafti fíkniefnabrota, ofbeldisverka og kúgunar,“ sagði Löfving í samtali í Ekot–laugardagsþætti sænska útvarpsins.

Markmiðið með komunni til Svíþjóðar væri þó ekki það eitt að stunda glæpaiðju heldur einnig að ala börnin innan fjölskyldnanna upp við glæpi svo að þau yrðu gjaldgeng innan skipulögðu glæpahópana.

Lögreglustjórinn segir lögregluna lengi hafa varað við vaxandi hættu af glæpagengjum.

„Við undrumst að ekkert hafi verið gert síðan við töldum stefna greinilega í þessa átt frá árinu 2012. Árið 2015 þróuðum við aðferð og kortlögðum Svíþjóð með tilliti til þessa ástands. Þannig gátum við skilgreint vandræðasvæði. Síðan höfum við uppfært tvisvar skráningu á vandræðasvæðum,“ segir Löfving.

Hann segir að glæpir séu átta sinnum algengari á svonefndum vandaræðasvæðum en annars staðar. Ástæður glæpastarfseminnar séu oft þess eðlis að þær falli alls ekki undir venjulegt starfssvið lögreglunnar.

„Ef við skoðum það sem einkennir þessi svæði skortir þar alla aðlögun, þá skortir húsnæði, atvinnu, skóla og félagslegt umhverfi. Ekkert af þessu fellur undir lögregluna,“ segir Löfving.

Hann segir að lögreglunni finnist hún njóti ekki „fulls stuðnings samfélagsins“ í þessu máli en stjórnmálamenn og ráðamenn minni á jó-jó þegar þeir ræði málið og geri það ekki nema fyrir mikinn þrýsting fjölmiðlamanna.

Honum finnst einnig að Svíar neiti að skilja til fulls ógnina sem að þeim steðji og að „umræðurnar um aðlögun eru oft dálítíð barnalegar í Svíþjóð“.

„Einstaklingur [innan fjölskyldna] er ekki mikilvægur en þess eru þó jafnvel dæmi að stofnað er til hjónabands til að styrkja fjölskylduna. Auk þess eru dæmi um að öll fjölskyldan og önnur skyldmenni ali börn sín upp til þess að taka að sér stjórn skipulagðrar glæpastarfsemi,“ sagði Löfving. „Þessi börn hafa engan áhuga á að verða hluti samfélagsins en metnaður þeirra stendur til þess strax frá fæðingu og í uppeldinu að taka að sér stjórn glæpakerfisins.“

Löfving nefndi dæmi um glæpafjölskyldur sem taka þátt í viðskiptalífinu og stjórnmálum til að geta tekið að sér stjórn sveitarfélags eða jafnvel á æðra stjórnsýslustigi. Hann nefndi þó engin sérgreind dæmi.

Hann sagðist geta tíundað dæmi um slíkar fjölskyldur sem störfuðu í Stokkhólmi, Södertälje, Gautaborg, Malmö auk Landskrona og Jönköping.

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …