
Jafnaðarmaðurinn Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, hvetur flóttamenn að leita til annarra landa en Svíþjóðar. Aðlögun flóttamanna að sænsku samfélagi sé ekki sem best og hafi ekki verið lengi.
„Ég tel að þetta fólk fái betri tækifæri leiti það til annars lands,“ segir hún í samtali við Dagens Nyheter föstudaginn 22. desember. Hún viðurkennir einnig að vandræði hafi skapast við að laga innflytjendur að sænsku samfélagi. Ráðherrann segir:
„Aðlögunin virkar ekki eins og að er stefnt. Málum var einnig þannig háttað fyrir haustið 2015 [þegar verulegur straumur farand- og flóttafólks var til Norður-Evrópu]. Í mínum huga er skýrt að við getum ekki tekið við umsóknum frá fleiri hælisleitendum en við höfum burði til að laga að samfélaginu. Annars er staðan hvorki góð fyrir fólk sem kemur hingað né fyrir samfélagið í heild.“
Svíar eru auk Þjóðverja sú þjóð í Evrópu sem hefur tekið á móti flestum hælisleitendum undanfarin ár.
Alls hafa rúmlega 120.000 hælisleitendur frá Sýrlandi einu sótt um hæli í Svíþjóð sýna tölur frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, (UNHCR). Danir hafa á sama tíma (2011-2017) tekið á móti um 20.000 sýrlenskum flóttamönnum.
Á árunum 2011-2016 sóttu alls 400.911 manns um hæli í Svíþjóð. Heildartala hælisumsókna í Danmörku á sama tíma var 59.921.
Heimidl: Jyllands-Posten