Home / Fréttir / Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Pål Jonson, varnarmalaráðherra Svía, og Tobias Lennart Billström utanríkisráðherra.

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var við málið á þingi. Í fimm tíma umræðum fyrir atkvæðagreiðsluna gerðu andstæðingar samningsins einkum athugasemdir við að í honum eða í tengslum við hann lægi ekki fyrir yfirlýsing sænskra stjórnvalda um að kjarnavopn yrðu aldrei leyfð á sænsku landi.

Þessi samningur er sögulegt skref fyrir ríki sem stóð í rúm 200 ár utan hernaðarbandalaga þar til aðild Svíþjóðar að NATO var endanlega samþykkt og landið gekk í bandalagið í mars 2024. Tæpu ári áður, í apríl 2023, gerðist Finnland aðili að NATO. Bæði ríkin sóttu um aðild að NATO vorið 2022, skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu. Þykir innganga þeirra í bandalagið mikið hernaðarlegt og pólitískt áfall fyrir Rússa.

Við þá breytingu í norrænum öryggismálum bætist að Norðmenn, Svíar, Finnar og Danir hafa allir gert tvíhliða samninga um varnarmál við Bandaríkjastjórn undanfarið. Norska stórþingið samþykkti fyrir skömmu uppfærslu á samningi sínum sem var upphaflega samþykktur árið 2022 af þinginu.

Í atkvæðagreiðslunni á sænska þinginu samþykktu 266 þingmenn samninginn, 37 greiddu atkvæði á móti honum en 46 þingmenn voru fjarverandi.

Þingmenn Vinstriflokksins og Græningja gagnrýndu að ekki væri tekið af skarið við gerð samningsins um að kjarnavopn yrðu ekki leyfð á sænsku landi.

Sænskir talsmenn slíks fyrirvara hafa vitnað til þess að í Finnlandi séu lög sem banna kjarnavopn í Finnlandi og til þeirra sé vísað í tvíhliða samningi Finna við Bandaríkjastjórn. Þá er bent á að í sænska samningnum sé ekki ákvæði eins og í norska samningnum eða þeim danska um að kjarnavopn megi ekki flytja til Noregs eða Danmerkur.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði við sænska ríkisútvarpið í maí sl. að í stríði réðist afstaða til kjarnavopna í Svíþjóð alfarið á því hver framvindan yrði.

Með samningnum fær Bandaríkjaher aðgang að 17 herstöðvum í Svíþjóð auk æfingasvæðis. Þá eru einnig ákvæði um heimild til að geyma vopn, skotfæri og önnur hergögn í Svíþjóð á friðartímum.

Í umræðunum um samninginn áréttaði Pål Jonson varnarmálaráðherra að Svíþjóð væri fullvalda ríki og ekkert annað ríki gæti neytt Svía til að hafa kjarnavopn á sænsku landi.

Varnarmálaráðherrann segir að Svíar verði að styrkja alþjóðasamstarf sitt til að verja frelsi sitt og lýðræði. Tvíhliða samstarfssamningurinn tryggi að þeir geti á skjótan og áhrifaríkan hátt fengið hernaðarlega aðstoð frá Bandaríkjunum ef ástand öryggismála versni. Samningurinn hafi fælingarmátt og stuðli að stöðugleika, dragi úr líkum á að styrjöld hefjist og auki öryggi Svíþjóðar.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …