
Sænska ríkisstjórnin hefur tekið sömu meginafstöðu og ríkisstjórnir Finnlands og Þýskalands og leyft Rússum að leggja hluta Nord Stream 2 gasleiðslunnar á botn langrunnsins innan sænsku efnahagslögsögunnar á Eystrasalti.
Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar sem birt var fimmtudaginn 7. júní segir að stjórninni sé ekki fært að lögum að hafna tillögu Rússa um Nord Stream 2 sem er í eigu rússneska orkurisans Gazprom og talið er að kosta muni 9,5 milljarða evra að leggja.
Mikael Damberg, framtaks- og nýsköpunarráðherra Svía, sagði að mat stjórnvalda hefði leitt til þess að þau gætu ekki sagt nei í málinu. Hvorki sænsk lög né alþjóðalög gæfu ríkisstjórninni svigrúm til að hafna tilmælum Rússa.
Hann áréttaði gagnrýni Svía á lagningu leiðslunnar. Hann sagði að tilkoma hennar væri andstæð markmiðum orkustefnu ESB og leiðslan kynni einnig á brjóta gegn ESB-lögum.
Nord Stream 2 verkefnið felur í sér að lagðar verða tvær samhliða leiðslur frá Rússlandi til Þýskalands og er hvor um sig um 1.200 km löng. Á sínum tíma, 2009, gáfu Svíar leyfi til lagningar á Nord Stream 1 og var hún lögð á árunum 2011 og 2012.
Eftir að nýju leiðslurnar verða lagðar fara um 80% af öllu rússnesku gasi sem selt er til Evrópu eftir þessari leið um Eystrasaltið.
Danir velta nú fyrir sér hvernig þeir eigi að bregðast við tilmælum Rússa um að leggja nýju leiðslurnar á landgrunni Borgundarhólms.
Heimild: EUobserver.