Home / Fréttir / Sænska ríkisstjórnin boðar endursendingu tugþúsunda hælisleitenda

Sænska ríkisstjórnin boðar endursendingu tugþúsunda hælisleitenda

 

 

Anders Ygeman, innanríkisráðherra Svía.
Anders Ygeman, innanríkisráðherra Svía.

Sænsk yfirvöld hafa ú hyggju að leigja flugvélar til að senda allt að 80.000 manns úr landi, þetta eru hælisleitendur sem hafnað hefur verið af sænskum yfirvöldum. Anders Ygeman innanríkisráðherra segir þetta „risavaxið viðfangsefni“.

Í viðtali við blaðið Dagens Industri fimmtudaginn 28. janúar segir ráðherrann að hann telji að minnsta kosti 60.000 og hugsanlega 80.000 af 163.000 hælisleitendum í Svíþjóð árið 2015 verði vísað úr landi. Þeir verði annaðhvort að halda til heimalands síns eða þess lands í Evrópu sem beri að taka við þeim í samræmi við Dublin-reglurnar.

„Fyrst hafa þeir tækifæri til að fara að fúsum og frjálsum vilja og það verður þeim auðveldað eins og kostur er. Velji þeir ekki þann kost verðum við að beita valdi við brottvísun þeirra,“ sagði Ygeman. „Ég tel að við þurfum sjá meira af leiguvélum, einkum innan ESB.“

Hann sagði sænsku ríkisstjórnina vona að hún gæti samið við stjórnvöld í öðrum ESB-ríkjum – einkum Þýskalandi – um að samræma endursendingar-flug með hælisleitendur. Svíar leita einnig eftir samningum við ríki eins og Afganistan og Marokkó.

Victor Harju, blaðafulltrúi Ygemans, sagði við vefsíðuna The Local fimmtudaginn 28. janúar að uppslátturinn væri „dálítið orðum aukinn“.

„Vegna þess hve við tókum á móti mörgum í Svíþjóð í fyrra stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að fleiri en áður standast ekki kröfur um skilyrði til hælisvistar og fá þess vegna ekki dvalarleyfi.“

Á local.se er vitnað í Terfa Nisébini, lögmann hælisleitenda, sem gagnrýnir  Ygemans innanríkisráðherra fyrir að reyna að hafa áhrif á sænsku útlendingastofnunina með því að segja að um það bil helmingi hælisumsókna sé eða verði hafnað.

Innan stjórnarandstöðuflokkanna efast ýmsir um að ríkisstjórnin hafi burði til að hrinda þessum áformum um brottvísun og endursendingu í framkvæmd.

Fredrick Federley, ESB-þingmaður fyrir Miðflokkinn segir: „Engum hefur tekist þetta til þessa. Um mjög langt skeið hefur Svíum ekki tekist að koma brottvísuðu fólki úr landi.“

Sænska útlendingastofnunin afgreiddi 58.800 hælisumsóknir á árinu 2105, af þeim voru um 55% samþykktar. Margar þessar umsóknir bárust stofnuninni á árinu 2014 áður flóðbylgjan kom árið 2015.

Sænsk stjórnvöld viðurkenna að „töluverð hætta“ sé að stór hluti brottvísaðra hælisleitenda reyni að dveljast áfram heimildarlaust í landinu. Til að sporna gegn því er ráðgert að ráða 1.000 nýja landamæraverði og hvetja atvinnurekendur til að ráða ekki þá til starfa sem hefur verið hafnað af útlendingayfirvöldunum.

„Það verður að sjá til þess að það verði dýrkeypt fyrir fyrirtæki að ráða ólöglegt vinnuafl. Sé vel þróaður, ólöglegur vinnumarkaður fyrir hendi í Svíþjóð hvetur það fólk til að dveljast áfram í landinu,“ segir Ygeman.

Patrik Engström, yfirmaður sænsku landamæralögreglunnar, sagði Dagens Industri að eftirleiðis mundu menn hann „leggja sig meira fram um“ að endursenda brottvísaða hælisleitendur. Hann sagði:

„Við þurfum að vinna miklu nánar með útlendingastofnuninni.  Margir hverfa sporlaust á þeirri stundu þegar þeim er vísað frá henni til lögreglunnar. Lögreglumenn verða að vera á þeim stað þar sem tilkynnt er um afgreiðslu hælisumsóknar.“

Heimild: local.se

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …