Home / Fréttir / Sænska öryggislögreglan varar við Rússum og Kínverjum

Sænska öryggislögreglan varar við Rússum og Kínverjum

Frá höfuðstöðvum Säpo í Solna úthverfi Stokkhólms,
Frá höfuðstöðvum Säpo í Solna úthverfi Stokkhólms,

Sænska öryggislögreglan Säpo kynnti ársskýrslu sína fyrir árið 2019 föstudaginn 27. mars. Meginniðurstaðan er að á fleiri sviðum en áður sé Svíum hótað af erlendum ríkjum. Þessar árásir aukist í takt við hnattvæðinguna auk þess geri stafræn samskipti samfélagið berskjaldaðra en áður var. Þá magnist hættan af ofbeldisfullum öfgamönnum til hægri og þeir höfði til fleiri en áður.

Þegar talað er um fleiri svið en áður er meðal annars vísað til friðhelgi einkalífs, mannréttinda, efnhagslegrar velmegunar, friðhelgi stjórnmála og landsyfirráða. Klas Friberg, forstjóri Säpo, sagði þegar hann kynnti ársskýrsluna að það hefði skapast hættulegt bil á milli þess sem gert væri til að vernda samfélagsleg réttindi og árásanna á þau. Þetta hefði afleiðingar fyrir öryggi Svíþjóðar.

Forstjórinn sagði að um fimmtán ríki héldu úti njósnurum í Svíþjóð. Helsta ógnin stafaði af Rússum og Kínverjum, Íranir eru í þriðja sæti.

Ólögleg starfsemi Rússa gegn Svíum snýst um njósnir varðandi öryggi ríkisins og varnir. Þá leitast Rússar við að móta skoðanir almennings með undirróðri, þeir beita fjárhagslegum þrýstingi og ýta undir átök andstæðra hópa í samfélaginu.

Kínverjar stunda háþróaðar netnjósnir til að styrkja þróun eigin efnahags og herafla. Þetta gera þeir með víðtækri ólögmætri upplýsingaöflun og þjófnaði á tækni, rannsóknum og þróun.

Skoða einnig

Sameinaður norrænn flugherafli að fæðast

Norrænu ríkin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að dýpka samstarf flugherja sinna. …