Home / Fréttir / Sænska öryggislögreglan snýst til varna í þágu kosningabaráttunnar

Sænska öryggislögreglan snýst til varna í þágu kosningabaráttunnar

Anders Thornberg
Anders Thornberg

Yfirmaður sænsku öryggislögreglunnar (Säpo) segir í samtali við BBC sem birtist fimmtudaginn 4. janúar að stofnunin takist ekki aðeins á við aukna hættu vegna hryðjuverka heldur einnig áhrif upplýsingafölsunar og falskra frétta.  Anders Thornberg, forstjóri Säpo, segir að líklega verði meiri umsvif hjá stofnun sinni í ár en í fyrra vegna þingkosninga í september 2018.

Viðbúnaður gegn hryðjuverkum jókst í Stokkhólmi eftir að vegið var að almenningi með akstri bifreiðar inn í göngugötu þar í apríl 2017, fimm manns týndu lífi vegna illvirkisins.

Fyrir fáeinum árum hafði Säpo auga með um 200 öfgamönnum en nú eru þeir um 3.000.

„Við höfum aldrei kynnst neinu sambærilegu á meðan ég hef starfað hér,“ segir Thornberg þegar fréttamaður BBC hittir hann í höfuðstöðvum Säpo. Forstjórinn hefur starfað innan lögreglunnar í 30 ár. „Eðlilega ástandið hefur tekið á sig nýja mynd,“ segir hann.

Áhyggjuefnin eru svipuð og í Bretlandi eða öðrum Evrópulöndum: öfgamenn snúa til baka frá Írak og Sýrlandi auk þess sem útbreiðsla öfgahyggju magnast meðal þeirra sem hafa setið heima.

Þá kemur fram hjá Thornberg að nauðsynlegt sé að fylgjast náið með hægri öfgamönnum sem standi að aðgerðum gegn farand- og flóttafólki meðal annars með sprengjuárásum. Óvild öfgahópa af þessari gerð beinist einnig gegn stjórnmálaflokkum og því sé nauðsynlegt að fylgjast náið með þeim í aðdraganda kosninganna.

Thornberg segir að reynslan sýni að pólískar aðgerðir öfgamanna aukist í aðdraganda kosninga. Hitt sé nýrra viðfangsefni að takast á við íhlutun erlendra aðila í kosningabaráttuna.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fylgjast með þessu og við erum ófeimnir hér í Svíþjóð – við segjum mesta ógn við öryggi okkar að þessu leyti koma frá Rússum,“ segir Thornberg.

Minnt er á að Svíar standi utan NATO en vilji náið og nánara samstarf við bandalagið. Gegn þessu vilji Rússar sporna. Þeir sendi meðal annars kafbáta inn í sænska landhelgi til að minna Svía á nærveru sína og stunda njósnir.

Thornberg segir að áhættufíkn Rússa og langtíma markmið séu áhyggjuefni.

„Við grípum til okkar ráða, við lærum, við fáum upplýsingar frá öðrum löndum og systurstofnunum og við leggjum okkur fram um að reyna að vernda sænsku kosningarnar,“ segir hann.

Thornberg nefnir ýmis dæmi um upplýsingafalsanir, þar á meðal bréf um vopnasamninga við Úkraínumenn með falsaðri undirskrift varnarmálaráðherrans.

Þá nefna sænskir embættismenn að birst hafi fölsk frétt um að fyrrverandi ráðherra hefði komið á fót hópi til að berjast við ESB-andstæðinga og hún hafi ratað inn í rússneska og breska fjölmiðla rétt áður en Bretar gengu til atkvæða um aðildina að ESB.

Á sjálfvirkan hátt var dreift fréttum inn á samfélagsmiðla um að múslimar hefðu unnið skemmdarverk á kirkju, upptök þessara falsfrétta hafi verið utan Svíþjóðar, þótt erfitt sé að sannreyna það.

Markmiðið með söguburði af þessu tagi virðist oft frekar að skapa deilur og minnka traust og trúverðugleika, þar á meðal fjölmiðla, en að vinna fylgi við eitthvert ákveðið sjónarmið.

„Vilji þeir skapa óvissu í landi okkar gera þeir það,“ segir Thornberg.

Hann segir að Svíar hafi kynnst njósnum og tölvuáhlaupum á grunnstoðir samfélags síns frá Rússlandi og einnig Kína. Sé um falskar fréttir að ræða komi þær á borð Säpo ef talið er að erlent ríki standi að baki þeim.

Sænsku almannavarnirnar, Myndigheten för samhällsskydd och beredskap, MSB, vinna einnig að því að sporna gegn upplýsingafölsunum.

Gordon Corera, fréttamaður BBC, ræðir einnig við Mikael Tofvesson, yfirmann greiningar- og eftirlitsdeildar MSB, sem segir að hlutverk stofnunarinnar sé meðal annars að greina upplýsingar sem kunni að hafa áhrif á velferð landsmanna, þjóðlífið eða geti vegið að grunngildum þess: málfrelsi, lýðræði og friðhelgi einstaklinga.

Gerðar hafa verið ráðstafanir til að auðvelda almenningi að bregðast við hættunni af upplýsingafölsunum. Fjölmiðlar veita liðsinni til að sannreyna réttmæti efnis og ríkisstjórnin vill að grunnskólabörnum sé kennt að átta sig á fölskum fréttum.

Talið er að það kunni að koma í ljós í kosningabaráttunni í ár hvaða árangri þetta allt skilar og Thornberg segir að tiltölulega opinn aðgangur að upplýsingum um starfsemi Säpo sé hluti þessarar stefnu.

„Ég tel mikilvægt fyrir okkur sem störfum að öryggismálum að upplýsa almenning um þær hættur sem að steðja og við höfum verulega lagt okkur fram um að gera það,“ segir hann og bendir á að þeir miðli upplýsingum á Twitter. Fyrsta sem þar bitist í nafni Säpo var: „Við erum á Twitter í þágu öryggis. Fylgist með okkur af því að við fylgjumst með ykkur.“

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …