
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, sagði mánudaginn 24. september að Rússar ætluðu að láta sýrlenska hernum í té háþróaðan loftvarnabúnað. Tilkynning forsetans er talin til marks um vaxandi spennu milli Rússa og Ísraela. Hún kunni að auka líkur á lofthernaði yfir Sýrlandi.
Ísraelar hafa árum saman lagst gegn því að Rússar flyttu vopn af þessu tagi til Sýrlands. Undanfarin tvö ár hafa Ísraelar gert meira en 200 árásir á skotmörk sem tengjast hernaði Írana í Sýrlandi. Rússar, höfuðverndarar Sýrlandsstjórnar, hafa almennt látið þetta afskiptalaust.
Samband Rússa og Ísraela hefur versnað frá því að rússnesk hervél var skotinn niður yfir Sýrlandi fyrir viku, 15 rússneskir hermenn fórust með henni. Sýrlendingar skutu vélina niður af slysni þegar þeir ætluðu að svara loftrárás Ísraela.
Rússar sökuðu Ísraela í fyrstu um verknaðinn en skömmu síðar virtist Pútín viðurkenna að um slys væri að ræða.
Annað var uppi á teningnum mánudaginn 24. september þegar rússneski varnarmálaráðherrann sagði að ákveðið hefði verið að senda háþróaðar S-300 flaugar til Sýrlands til að bregðast við virðingarleysi Ísraela við öryggi rússneskra hermanna. Hann sagði að ísraelskir flugmenn hefðu af ásetningi flogið nærri rússnesku vélinni til að nota hana sem skjöld gagnvart skothríð Sýrlendinga og þannig stefnt rússnesku áhöfninni í hættu.
Ísraelar hafna þessari skýringu og segja að vélar sínar hefðu þegar verið komnar að nýju í ísraelska lofthelgi þegar sýrlensku flauginni var skotið.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, ræddi í síma við Pútín mánudaginn 24. september um „að flutningur á þróuðum vopnakerfum í hendur ábyrgðarlausra yki hættu á svæðinu,“ sagði í tilkynningu forsætisráðuneytisins.
Forsætisráðherrann áréttaði að Ísraelar mundu áfram verja öryggi sitt og hagsmuni. Þessi orð eru túlkuð á þann veg að Ísraelar haldi ekki aftur af sér við árásir á skotmörk tengd Írönum, þar á meðal vegna flutnings þróaðra vopna til Hezbollah, skjólstæðinga Írana í Líbanon, vopna sem nota eigi gegn Ísrael.
Haft er eftir ísraelskum sérfræðingum að yrðu öflugar, rússneskar S-300 loftvarnaflaugar sendar til Sýrlands yrði það aðeins til að gera árásir Ísraela flóknari og hættulegri. Ekki yrðu nein þáttaskil á þessum slóðum vegna nýju vopnanna því að ísraelski herinn hefði árum saman búið sig undir að þau yrðu send til Sýrlands. Líklega væru til áætlanir í fórum Ísraela um hvernig eyðileggja megi eldflaugakerfin.
S-300 flaugarnar eru í rörum á flutningabíl og minna þær á trjáboli. Flaugunum er ekið úr einum stað í annan til að minnka líkur á unnt sé að granda þeim. Hver flaug dregur um 240 km. Sýrlendingar ráða nú yfir gömlum S-200 flaugum frá Rússum. Í nýju flaugunum er rafeindabúnaður sem á að hindra að þær grandi vinveittum flugvélum.
Versnandi samskipti Rússa og Ísraela valda meiri áhyggjum en þróun tækninnar. Hótun um uppsetning á S-300 flaugunum er talið sýnilegt merki um að hættan sem skapaðist þegar rússnesku vélinni var grandað sé ekki úr sögunni.
Atvikið varð eftir að ísraelskum þotum hafði verið beitt til að granda víghreiðri í vesturhluta Sýrlands. Ísraelar sögðu að þar hefðu verið vopn á leið til Hezbollah.
Sýrlenski herinn svaraði með því að skjóta úreltri, sovéskri flaug sem hitti rússneska eftirlitsvél, Iljushin II-20 vél.
Rússneska varnarmálaráðuneytið sakaði Ísraela um að fela F-16 þotur sínar á bakvið rússnesku vélina og þeir hefðu þar með breytt Il-20 vélinni í skotmark loftvarnakerfis Sýrlendinga. Ísraelar sögðu að rússneska vélin hefði ekki verið á svæðinu þegar þeir réðust á skotmark sitt og að ísraelsku vélarnar hefðu að nýju verið í lofthelgi Ísraels þegar eftirlitsvélinni var grandað.
Daginn eftir dró Pútín úr spennu vegna atviksins þegar hann virtist fallast á skýringu Ísraela og sagði „röð sorglegra, slysalegra atburða“ um að kenna en ekki aðeins Ísraelum.
Heimild: NYT