Home / Fréttir / Rússum refsað – Þýskalandskanslari lokar á Nord Stream 2 gasleiðsluna

Rússum refsað – Þýskalandskanslari lokar á Nord Stream 2 gasleiðsluna

Rússnesk stjórnvöld standa frammi fyrir refsiaðgerðum eftir viðurkenningu þeirra á tveimur aðskilnaðarsvæðum frá Úkraínu, Donetsk og Luhansk. Þýska ríkisstjórin hefur lagt stein í götu þess að Nord Stream 2 gasleiðslan verði opnuð.

Eftir að hafa viðurkennt þessi tvö „alþýðulýðveldi“ síðdegis mánudaginn 21. febrúar skrifaði Vladimir Pútin Rússlandsforseti undir samning við sjálfskipaða stjórnendur þeirra um að rússneskt herlið færi um héruðin til „friðargæslu“.

Aðgerðir Rússa eru brot á alþjóðalögum og Minsk-friðarsamkomulaginu sem Pútin stóð að á sínum tíma. Meirihluti öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fordæmdi Rússa á neyðarfundi 21. febrúar.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari gaf þriðjudaginn 22. febrúar fyrirmæli um að þýskar skráningar- og eftirlitsstofnanir hætt vinnu við að undirbúa leyfisveitingu vegna Nord Stream 2 gasleiðslunnar milli Rússlands og Þýskalands.

„Þetta kann að hljóma tæknilega en um er að ræða nauðsynlegt stjórnsýsluskref, það verður ekki leyfð nein gasleiðsla án þessa leyfis, ekki er unnt að starfrækja Nord Stream 2,“ sagði kanslarinn.

Hann sagði að vænta mætti „frekari refsiaðgerða“ og lýsti aðgerðum Rússa sem alvarlegu broti á alþjóðalögum.

Ráðherrar ESB-ríkja og Bandaríkjastjórn undirbúa nú refsiaðgerðir gegn þeim sem stóðu að ákvörðunum um viðurkenningu á „alþýðulýðveldunum“. Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, gerði þriðjudaginn 22. febrúar lítið úr slíkum aðgerðum, til þeirra hefði verið gripið hvort sem er og við þeim hefði mátt búast vegna viðurkenningarinnar 21. febrúar.

Rússneska utanríkisráðuneytið hvetur önnur ríki til að fylgja fordæminu frá Moskvu og viðurkenna „alþýðulýðveldin“. Viðurkenning Rússa bindur enda á allar tilraunir til að leysa deilur um austurhluta Úkraínu á grundvelli Minsk-friðarsamkomulagsins.

Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Breta, sagði þriðjudaginn 22. febrúar að innrásin í Úkraínu væri „hafin“. Bretar búa sig undir að tilkynna refsiaðgerðir af sinni hálfu.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sagði Pútin hafa „misreiknað sig alvarlega“ og „fyrsti hluti“ refsiaðgerða yrði kynntur 22. febrúar.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, fordæmir viðurkenningu Rússa á „alþýðulýðveldunum“. Hann hvatti þá sem að málinu koma til að sýna „almenna skynsemi og fara að alþjóðalögum“. Erdogan snerist einnig harkalega gegn hernámi Rússa á Krímskaga árið 2014 vegna þess að Tatarar með tyrkneskar rætur hefðu búið þar um aldir.

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …