Home / Fréttir / Rússum kennt að brosa til erlendra gesta á HM

Rússum kennt að brosa til erlendra gesta á HM

images

Rússar hafa reist leikvelli, lagt flugvelli og vegi í 11 borgum vegna heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu (HM) en það er að minnsta kosti jafnstórt verkefni að fá þá til að brosa segir á bresku vefsíðunni The Telegraph sunnudaginn 10. júní.

Vegna keppninnar hafa þúsundir sjálfboðaliða og starfsmenn við almenningssamgöngur fengið sérstakar kennslustundir til að tileinka sér bros, kurteisi og til að geta sagt nokkrar setningar á ensku. Árangurinn hefur verið mismikill.

„Stundum er erfitt fyrir okkur að tjá okkur með brosi,“ sagði Anna Maljuk sem samræmir störf sjálfboðaliða við HM í Moskvu. „Þótt einhver brosi ekki þýðir það ekki að hann sé ekki hamingjusamur. Þau eru hjálpsöm og opin, þau eru aðeins alvarleg þá stundina.“

Breski blaðamaðurinn segir að það sé engin tilviljun að útlendingum finnist Rússar oft svipþungir og hranalegir. Þeir líta á það sem sýndarmennsku þegar brosað er til ókunnugra. Hvers vegna skyldi maður gleðjast yfir að hitta einhvern sem maður þekkir ekki?

Almennt eru samskipti manna á milli einstaklega stuttaraleg. Það er meira metið að menn segi það sem þeir meina heldur en vefja það inn í kurteisihjal og síðan líkar mönnum alls ekki við framandlegu hugmyndina um „pólitískan rétttrúnað“.

Undanfarið ár hefur Elnara Mustafina sálfræðingur leitt 800 rússneska lestarstjóra í gegnum tveggja tíma námskeið sem heitir: „Þjónusta hefst með brosi.“

Hún viðurkennir að í byrjun sé erfitt að fá nemendur til að brosa. Henni er hins vegar kappsmál að fá þá til að gera það svo að erlendir gestir á HM telji sig ekki óvelkomna.

„Þeir eru ekki vanir þessu. Starf þeirra er erfitt auk þess finnst Rússum bros við fyrstu kynni hæfa sýndarmennsku brosandi Bandaríkjamanna,“ sagði Mustafina. „Ég sýni þeim þess hvernig þeir eiga að brosa með því að herma eftir mér.“

Hún hefur einnig kennt námskeið sem kallast: „Samskipti við fótbolta-áhangendur“.

Það verði að venja þá sem sinna þjónustu við að sýna vinsemd til að árásargjarnir áhangendur túlki ekki skort á brosi sem neikvætt viðmót.

Alþjóðlegi tungumálaskólinn Education First setur Rússland í 24. sæti af 27 Evrópulöndum þegar mæld er enskukunnátta þjóðanna almennt.

Til skamms tíma voru tilkynningar og merkingar í jarðlestastöðvum aðeins á rússnesku og með rússnesku letri. Nú er þetta breytt og á staðarkortum eru heiti brautarstöðva einnig birt með latnesku letri.

Þegar Vladimir Pútín Rússlandsforseti flutti ræðu og þakkaði fyrir að HM yrði í Rússlandi sagði hann nokkrar setningar á ensku sem er að sumra áliti eina skiptið sem hann hefur gert það í opinberri ræðu.

Nú hafa um 34.000 sjálfboðaliðir vegna HM verið þjálfaðir í að taka á móti gestum á ensku og vísa þeim til sætis eða til vegar einnig á ensku. Þeir eiga að geta sagt setningar eins og You are welcome eða Can I help you? án þess endilega að skilja þær sjálfir.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …