Home / Fréttir / Rússum ber að svara á norðurslóðum með fleiri bandarískum kafbátum en ekki ísbrjótum

Rússum ber að svara á norðurslóðum með fleiri bandarískum kafbátum en ekki ísbrjótum

Bandarískur árásar-kafbátur.
Bandarískur árásar-kafbátur.

Magnus Nordenman, vara-forstjóri Brent Scowcroft Center on International Security forstöðumaður Transatlantic Security Initiative á vegum Atlantic Council í Washington, segir í nýlegri grein á vefsíðunni Defense News, að athygli Bandaríkjamanna eigi ekki að beinast á flota rússneskra ísbrjóta í Norður-Íshafi heldur auknum umsvifum rússneska herflotans, einkum kafbátaflotans.

Nordenman vísar til þess að á Bandaríkjaþingi sé þess ítrekað krafist af Bandaríkjastjórn að hún kaupi fleiri ísbrjóta fyrir bandarísku strandgæsluna. Þessi krafa hafi verið uppi árum saman og jafnan sé vísað til þess að Rússar eigi næstum 40 ísbrjóta og Bandaríkjamenn verði að standa þeim snúning á þessu sviði til að hafa hemil á þeim á Norður-Íshafi.

Í greininni segir Nordenman að vissulega gæti það komið sér vel fyrir strandgæsluna að eignast fleiri ísbrjóta en Bandaríkjamenn eigi ekki að keppa við Rússa á því sviði. Það sé fyllilega skiljanlegt að Rússar haldi úti flota ísbrjóta sem sé meira en 10 sinnum stærri en floti Bandaríkjanna. Strandlengja Rússa sé sú lengsta við Norður-Íshaf og um 20% af vergri landsframleiðslu Rússa komi frá atvinnustarfsemi á norðurslóðum. Þá vilji Rússar einnig tengja Kyrrahaf og Atlantshaf með Norðurleiðinni, siglingaleiðinni fyrir norðan Rússland. Þetta verði ekki unnt án getu til þess að halda siglingaleiðinni ávallt opinni og veita þá leitar- og björgunarþjónustu sem það krefst. Að öðrum kosti sendi stór skipafélög skip sín ekki inn á þessa leið.

Í greininni segir Magnus Nordenman:

„Öryggi Bandaríkjanna á norðurslóðum er á hinn bóginn ógnað af endurnýjun rússneska herflotans og einkum Norðurflotans. Hann hefur bækistöðvar á og við Kóla-skaga og innan hans er finna háþróaðan vopnabúnað aðeins skammt frá Norður-Noregi. Kjarnorkuherafli Rússa á höfunum er einnig hluti af Norðurflotanum. Frá Kola-skaga eiga skip Norðurflotans aðgang að Atlantshafi og þar lætur hann æ meira að sér kveða með sífellt háþróaðri kafbátum en frá sumum þeirra má senda langdrægar stýriflaugar gegn skotmörkum á landi. Flotastjórn NATO tilkynnti nýlega að umsvif rússneskra kafbáta nálguðust nú að verða jafnmikil og í kalda stríðinu. Þá hefur Norðurflotanum þegar verið beitt til að sýna vaxandi vald Rússa á svæðum víðs fjarri norðurslóðum. Má þar til dæmis nefna að flugmóðurskipið Kuznetsov var sent frá Kola-skaga til Miðjarðarhafs og frá því voru gerðar loftárásir á skotmörk í Sýrlandi til stuðnings stjórn Assads.

Háttsettir bandarískir herforingjar hafa vakið máls á umsvifum og hátækni Norðurflotans, má þar nefna þáv. yfirmann Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna, Philip Breedlove hershöfðingja, sem lýsti opinberlega áhyggjum yfir að Rússar mundu geta lokað siglingaleiðum milli Norður-Ameríku og Evrópu á hættutímum og þar með komið í veg fyrir að unnt yrði að flytja liðsauka frá Bandaríkjunum yfir Atlantshaf. Æfingar Rússa hafa einnig sýnt að ástæða er til að hafa áhyggjur í þessa veru og sama er að segja þegar litið er á flotastefnu Rússa sem var nýlega uppfærð en þar lögð áhersla á almennan aðgang Rússa að Atlantshafinu.

Sé ætlunin að svara áskorun Rússa á norðurslóðum er ekki þörf á fleiri bandarískum ísbrjótum, heldur fleiri bandarískum kafbátum og nýju hlustunarkerfi sem auðveldar eftirlit með sífellt hljóðlátari rússneskum kafbátum. Bandaríkjamenn verða einnig að eiga enn nánara samstarf við bandamenn sína á svæðinu í heild, einkum Norðmenn, Breta og Íslendinga.

Rússneski flotinn er kominn á kreik að nýju á norðurslóðum og hann sýnir það með nýjum kafbátum og langdrægum stýriflaugum, ekki ísbrjótum.“

Þess má geta að Magnus Nordenman tók þátt í ráðstefnu Varðbergs 17. nóvember 2016. Þessi grein hans birtist 24. febrúar 2017.

 

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …