Home / Fréttir / Rússneskur umbótasinni á gjörgæslu með sjaldgæf einkenni

Rússneskur umbótasinni á gjörgæslu með sjaldgæf einkenni

Anatolij Tsjubais

Brottflutti Rússinn Anatolij Tsjubais (67 ára), umbótasinni eftir fall Sovétríkjanna, náinn samstarfsmaður Boris Jeltsíns Rússlandforseta á tíunda áratugnum og stjórnandi einkavæðinga í Rússlandi er nú í gjörgæslu á sjúkrahúsi í Evrópu með sjaldgæfan ónæmissjúkdóm. Hann hvarf á brott frá Rússlandi eftir að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu í febrúar 2022.

Mánudaginn 1. ágúst var lítið vitað um líðan Tsjubais, daginn eftir að rússneska sjónvarpskonan Ksenia Sobtsjak, vinkona Tsjubais, skrifaði á Telegram að hún hefði rætt við eiginkonu Tsjubais, Avdotju Smirnovu, sem sagði henni frá veikindum eiginmanns síns, að hann þjáðist af Guillain-Barre sjúkdómnum og væri nú í gjörgæslu á ótilgreindu evrópsku sjúkrahúsi.

Á vefsíðunni doktor.is er Guillian-Barré sjúkdómi lýst sem sjaldgæfum bólgusjúkdómi þar sem ónæmiskerfið ræðst á eigið úttaugakerfi, þ.e. taugarnar utan heila og mænu. Sjúkdómurinn byrji yfirleitt með skyndilegu máttleysi eða doða í útlimum sem geti svo breiðst út tiltölulega hratt og endað á að allur líkaminn lamist. Engin lækning sé til en ýmsir meðferðarmöguleikar kunni að draga úr einkennum og áhrifum þeirra og stytta bataferlið. Flestir jafni sig að fullu eftir að sjúkdómurinn hafi gengið yfir og 60-80% sjúklinga séu farnir að ganga að nýju eftir 6 mánuði.

Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, sagðist ekki vita um neina beiðni frá Tsjubais eða fulltrúum hans um aðstoð.

„Þetta eru auðvitað sorglegar fréttir og við óskum honum skjóts bata en vitum ekkert um málið,“ sagði Peskov og bætti við að embættismenn rússneska ríkisins væru reiðubúnir að veita „öllum rússneskum ríkisborgurum aðstoð“.

Í ítalska blaðinu la Repubblica sagði að Tsjubais hefði veikst í heimsókn á eyjunni Sardiníu. Lögregla rannsakaði málið og hvort eitthvað grunsamlegt hefði gerst, eins og til dæmis að honum hefði verið byrlað eitur. Reuters-fréttastofan vísar á hinn bóginn í einn heimildarmann sem telur að veikindin sé ekki unnt að rekja til eitrunar.

Nokkrir andstæðingar Pútins hafa mátt þola eiturárásir, oft utan Rússlands. Öllum ásökunum í þá veru hefur hins verið hafnað frá Kreml þrátt fyrir sterkar sannanir um hlutdeild rússneskra yfirvalda í mörgum tilvikum.

Anatolij Tsjubais var aðalráðgjafi Vladimirs Pútins Rússlandsforseta um leiðir til að auka sjálfbærni þegar hann sagði af sér og hvarf á brott frá Rússlandi. Þá hafði hann einnig starfað að norðurslóðamálum.

Tsjubais skýrði aldrei opinberlega frá því hvers vegna hann sagði af sér eða fór úr landi en leiddar voru líkur að því að með ákvörðun sinni hefði hann látið í ljós óánægju með tilefnislausa innrás Rússa í Úkraínu ­– varð hann með því hæst setti rússneski embættismaðurinn sem snerist gegn Pútin.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …