Home / Fréttir / Rússneskur togari ferst á Barentshafi

Rússneskur togari ferst á Barentshafi

Togarinn Onega.
Togarinn Onega.

Rússneski togarinn Onega MK 0331 sökk að morgni 28. desember á Barentshafi nálægt Novaja Zemlja. Um borð var 19 manna áhöfn, tveimur var bjargað sagði í tilkynningu frá neyðarráðuneyti Rússlands (EMERCOM) sem vitnað er til í frétt TASS-fréttastofunnar.

Leit og björgun er stjórnað frá miðstöð í Múrmansk með aðstoð rússneska Norðurflotans. Frost á þessum slóðum er um 20 gráður, heimskautamyrkur og ölduhæð allt að fjórum metrum.

EMERCOM sagði líklegt að togarinn hefði sokkið vegna ísingar. Í hafroki og öldugangi í svo miklu frosti safna skip á sig ís og fara auðveldlega á hliðina undan eigin þunga.

Áhöfn nálægs skips tókst að bjarga skipverjunum tveimur sem voru í flotbúningum. Allir skipverjar Onega voru Rússar.

Í einni frétt segir að slysið hafi orðið þegar troll var dregið um borð í skipið. Atburðarásin hafi verið of hröð til þess að skipverjum gæfist tóm til að nota björgunarbáta.

Ongea hélt til veiða í Barentshafi mánudaginn 14. desember frá norska landamærabænum Kirkenes.

Þyrlur ná ekki frá Múrmansk til austurhluta Barentshafs. Norðurflotinn sendi Il-38 eftirlitsvél til að taka þátt í leit að skipverjum togarans en vegna myrkurs er hún mjög erfið.

Andreij Tsjibis, héraðsstjóri í Múrmansk, sagði í yfirlýsingu sem birtist á Instagram að sér hefðu borist hörmulegar fréttir af Barentshafi. Aðgerðastöð hefði verið opnuð og komið á sérstakri símaþjónustu fyrir fjölskyldur skipverja.

Talið er að á síðari tímum hafi ekki orðið verra borgaralegt sjóslys á Barentshafi en nú með brotthvarfi Onega og 17 úr 19 manna áhöfn skipsins. Lítil von er á að nokkur finnist á lífi í þeim fimbulkulda sem er á slysstað.

Rússneski herflotinn hefur orðið fyrir manntjóni vegna kafbátaslysa í Barentshafi. Í ágúst fórst öll 118 manna áhöfn kafbátsins Kursk eftir að tundurskeyti sprungu um borð. Í júlí 2019 dóu 14 í áhöfn sérverkefna-kafbátsins Losharik þegar eldur varð um borð.

Togarinn Onega var smíðaður í Noregi árið 1979 og bar nafnið Remfisk til ársins 2003.

Í apríl 2015 sökk rússneskur togari á Okhotskhafi undan strönd Kamtsjaka. Um borð var 132 manna áhöfn og björgðuðust aðeins 63.

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …