
Allt er á öðrum endanum í Hvíta húsinu, Washington og miklu víðar vegna frásagnar Donalds Trumps yngra, elsta sonar Bandaríkjaforseta, af fundi sem hann átti snemma í júní árið 2016 með rússneskum lögfræðingi eftir að hafa fengið boð um millilið um að lögfræðingurinn byggi yfir upplýsingum sem gætu gagnast Trump í forsetaframboðinu gegn Hillary Clinton. Þetta þykir staðfesta að leynimakk hafi verið milli stuðningsmanna Trumps og Rússa til að skapa Hillary Clinton vandræði og hindra að hún næði kjöri sem forseti.
Rússneski lögfræðingurinn heitir Natalia Veselnitskaja. Hún var kölluð til varnar þegar sonur háttsetts rússnesks embættismanns var ákærður í New York fyrir peningaþvætti með 14 milljón dollara kaupum á fasteign á Manhattan. Hún rak einnig mál fyrir borgaryfirvöld í Moskvu gegn IKEA vegna ágreinings um stækkun verslunarinnar þar.
Í The New York Times, NYT, er miðvikudaginn 12. júlí haft eftir heimildarmönnum í Moskvu að Natalia Veselnitskaja (42 ára) njóti trausts í innsta hring ráðamanna í borginni. Hún hafi árum saman verið lögfræðingur Katsjív-fjölskyldunnar en fjölskyldufaðirinn, Pjotr D. Katsjív var árum saman ráðherra samgöngumála í héraðinu sem kennt er við Moskvu. Sonur hans var sakaður um peningaþvættið í New York.
Pjotr D. Katsjív er nú stjórnarformaður rússneska járnbrautalestarfélagsins. Þetta er ríkisrekið einokunarfyrirtækið, stærsti atvinnurekandi Rússlands sem löngum hefur setið undir ásökunum um spillingu.

Donald Trump jr. segist hafa samþykkt að hitta rússneska lögfræðinginn ásamt mági sínum og stjórnanda kosningabaráttu Trumps á þeim tíma eftir að hann fékk tölvubréf frá millilið sem sagði að einhver sem kynnti sig sem „rússneskan ríkisstjórnar lögfræðing“ myndi láta í té upplýsingar sem rússneski ríkissaksóknarinn hefði tekið saman og kæmu sér illa fyrir Hillary Clinton.
NYT segir að ekki sé nákvæmlega vitað hvað Natalia Veselnitskaja sagði á fundinum með Trump jr. sem tók um 30 mínútur. Donald Trump jr. segir að hún hafi mest allan tímanna fjargviðrast yfir refsiaðgerðum Bandaríkjamanna gegn Rússum. Veselnitskaja hefur neitað að hún hafi verið gerð út af rússneskum embættismönnum til að ræða skaðvænleg mál við kosningastjórn Trumps.
Dmitri S. Peskov, talsmaður Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, sagði fréttamönnum að í Kreml hefðu menn aldrei heyrt af Veselnitskaju. Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði að ráðuneytið hefði „ekkert með hana að gera“.
NYT segir að þess beri að minnast að í Rússlandi séu línur á milli hollustu og þjónustu í þágu ríkisins óljósari en í öðrum löndum.
Bill Browder, höfundur bókarinnar Eftirýstur sem kom út hér á landi haustið 2015 og hann kom hingað til að kynna, hefur oftar en einu sinni tekist á við Veselnitskaju. Hann sagði um Pjotr D. Katsjív: „Sé litið á sambönd hans innan Rússlands má líkja honum við Christ Christie [republíkana, ríkisstjóra í New Jersey, öflugan stuðningsmann Trumps]: engin formleg tengsl við Kremlverja en mjög sterk tengsl við þá sem öllu ráða.“
Preet Bharara, alríkissaksóknari í Manhattan, glímdi við Veselnitskaju í peningaþvættismálinu gegn Denis P. Katsjív. Saksóknarinn mótmælti því meðal annars að hún krefðist þess að bandaríska ríkið greiddi fyrir sig gistingu á Plaza hótelinu þar sem nóttin kostaði 995 dollara um 100.000 kr. Peningaþvættismálinu lauk með sátt tveimur mánuðum eftir að Trump forseti leysti Bharara saksóknara frá störfum.
Fyrirtæki Katsjívs, Prevezon Holdings, var ekki sakfellt en greiddi 6 milljón dollara fyrir sáttagerðina. Ákæruvaldið sagði niðurstöðuna sigur fyrir sig en Veselnitskaja sagði við dagblaðið Izvestiu að þetta jafngilti „næstum afsökun frá stjórnvöldum“.
Undanfarin ár hefur Veselnitskaja komið fram fyrir hönd ráðamanna í Moskvu í tilraunum þeirra til að fá svonefndum Magnitskíj-lögum í Bandaríkjunum hnekkt.
Lögin má rekja til 230 milljón dollara skattsvika í Rússlandi sem lögfræðingurinn Sergei Magnitskíj afhjúpaði. Sömu saksóknarar og hann taldi standa að skattsvikunum handtóku Magnitskíj. Hann dó sem fangi árið 2009 og er talið að það megi rekja til illrar meðferðar og skorts á læknishjálp.
Bill Browder sem réð Magnitskíj til starfa fyrir sig þegar sótt var að honum af rússneskum valdamönnum tókst árið 2012 að fá Bandaríkjaþing til að samþykkja Magnitskíj-lögin. Þeim hefur verið beitt gegn rússneskum áhrifamönnum með því að banna þeim að koma til Bandaríkjanna. Pútín brást illa við lögunum og svipti Bandaríkjamenn heimild til að ættleiða börn frá Rússlandi.
Veselnitskaja hefur gengið á fund bandarískra þingmanna til að berjast gegn þessum lögum og hún tók einnig þátt í að stofna baráttuhóp til að hafa áhrif á þingmenn.
Laugardaginn 8. júlí sagði Veselnitskaja að hún hefði óskað eftir að hitta menn í kosningastjórn Trumps í von um að fá þar stuðning við að afnema Magnistskíj-lögin. Þetta kom fram í skriflegu svari hennar til NYT. Hún hefur neitað blaðinu um viðtal.
Veselnitskaja segir að hún hafi unnið meira en 300 mál fyrir dómstólum. Lögfræðingur sem hefur flutt mál gegn henni fyrir rétti segir að hún beiti aðferð sem sé 20% reist á lögfræði en 80% á leikbrögðum. Lögfræðingurinn vildi ekki heimila NYT að birta nafn sitt af umhyggju fyrir öryggi fjölskyldu sinnar.
Donald J. Trump jr. birti þriðjudaginn 11. júlí tölvubréf sem gefa til kynna að milliliður vegna fundarins með Veselnitskaju hafi verið söngvarinn Emin Agalarov, sonur milljarðamæringsins Aras Agalarovs sem var samstarfsfélagi Trumps árið 2013 þegar þeir skipulögðu Miss Universe-fegurðarsamkeppni í Moskvu.
Agalarov reisir auð sinn að hluta á risa-verslunarmiðstöðvum sem eru víða í útjöðrum Moskvu. Talið er að þar hafi skapast tengsl á milli hans og Katsjívs og þar með Veselnitskaju.

Í breska blaðinu The Daily Telegraph segir miðvikudaginn 12. júlí að fundi Trumps jr. og Veselnitskaju hafi verið komið á fyrir tilstilli breska tónlistarumboðsmannsins Robs Goldstones. Hann hafi þekkt Trump jr. í gegnum samband hans við föður hans sem myndaðist í tengslum við Miss Universe-keppnina í Moskvu árið 2013.
Goldstone sendi Trump jr. tölvubréf þar sem hann sagði honum frá „ofurviðkvæmum“ upplýsingum sem snertu „stuðning Rússa og stjórnvalda þeirra við framboð Trumps“.
Trump jr. svaraði: „Ef þetta er það sem þú segir gleður það mig einkum síðar í sumar.“