Home / Fréttir / Rússneskur sendiherra lýsir Svíþjóð og Finnlandi sem „skotmörkum““

Rússneskur sendiherra lýsir Svíþjóð og Finnlandi sem „skotmörkum““

 

Viktor Tatarintsev, sendiherra Rússa, í Stokkhólmi.

Finnland og Svíþjóð verða „skotmörk“ frá Moskvu gangi ríkin í NATO segir sendiherra Rússlands. Eftir aðild þeirra „tvöfaldast næstum heildarlengd landamæranna milli Rússlands og NATO,“ sagði Viktor Tatarintsev sendiherra þriðjudaginn 28. mars á vefsíðu rússneska sendiráðsins í Stokkhólmi.

„Telji einhver enn að þetta muni á einhvern hátt bæta evrópskt öryggi skulu menn fullvissaðir um að nýju aðilarnir að óvinveittu blökkinni verða að lögmætum skotmörkum í gagnaðgerðum Rússa, meðal annars hernaðarlegum,“ sagði sendiherrann einnig.

Euronews-fréttastofan segir að Rússar hafi hvað eftir annað hótað norrænu ríkjunum tveimur eftir að þau lögðu fram aðildarumsóknir sínar að NATO í maí 2022 eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Finnar bíða þess nú að Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti standi við loforð sitt um að samþykkja aðildarumsókn þeirra að NATO. Ungverska þingið samþykkti aðild Finna miðvikudaginn 29. mars og er þess vænst að ungverska stjórnin afhendi fullgildingarskjalið í Washington 31. mars en þar er stofnsáttmáli NATO varðveittur.

Tyrkir tefja enn aðild Svía og neita að taka umsóknina til þinglegrar meðferðar og Ungverjar liggja einnig á umsókninni óafgreiddri.

Fyrir stjórnum beggja landa vakir að fá eitthvað fyrir sinn snúð frá stjórnvöldum í Stokkhólmi auk þess sem Ungverjar nýta málið einnig til fá fyrirgreiðslu innan ESB. Tyrkir vona að þvermóðska þeirra gegn Svíum geri þeim kleift að ná einhverjum hagsmunamálum sínum fram í Washington.

Rússneski sendiherrann í Stokkhólmi, sem fæddist í Kherson sem nú er í Úkraínu, efast hins vegar ekki um að með NATO-aðildinni stigi Svíar „fram af bjargbrúninni“.

Hann gagnrýnir „fljótræðið“ og að ekki hafi verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu og fullyrðir að herstjórn NATO hafi „ákveðið að blanda sér beint í átökin“ og skapa þannig hættu fyrir Svía.

„Þegar málum er þannig háttað verða Svíar kallaðir til og sendir út í dauðann vegna hagsmuna annarra,“ segir Viktor Tatarintsev.

Sendiherrann fullyrðir að Svíar séu haldnir ótta við Rússa og séu enn reiðir yfir að hafa orðið undir í átökum við Rússa árið 1709 í Poltava. Með NATO-aðild verði Svíþjóð „hlýðin“ bandarísk nýlenda.

Viðbrögð Svía

Aftonbladet í Stokkhólmi sneri sér til Rússlandsfræðingsins og fyrrverandi fréttamannsins Malcolms Dixelius og leitaði álits hans á ummælum sendiherrans. Hann segir:

„Rússar trúa því í alvöru að áhugi Svía á Úkraínu ráðist af því að við urðum undir í orrustunni við Poltava árið 1709. Rússar eru ofurseldir eigin stórveldisdraumi.“

  • Sendiherrann fullyrðir að nú verði Svíþjóð hlýðin bandarísk nýlenda?

„Þeir segja það sama um Úkraínu, að þeir berjist ekki fyrir eigin sjálfstæði heldur í þágu Bandaríkjanna. Sjálfir telja Rússar að mikilfengi lands síns felist í að þeir ráði öllu í nágrenni sínu. Í umræðum í Rússlandi er því aldrei hreyft að það kynni að vera gott að vera aðeins minni og hugsa um sjálfa sig.“

  • Hvers vegna segir hann að Svíþjóð verði réttmætt skotmark ef við förum inn í NATO?

„Það er augljóst að við yrðum skotmark í stríði hvort sem við værum í NATO eða ekki. Rússar hafa aldrei látið neinn í friði sem lýsir sig hlutlausan.“

  • Hann segir einnig í texta sínum að kannski verði engir Úkraínumenn eftir að lokum og þá verði Svíar sendir til Úkraínu „til að deyja í þágu erlends málstaðar“?

„Þetta eru hugarórar. Úkraínumenn munu ekki yfirgefa eigið land og það er óhugsandi að Rússar geti nokkru sinni lagt undir sig Úkraínu, hvorki efnahagslega né hernaðarlega.“

  • Hver eru viðbrögð þín við bréfi Tatrintsevs til Svía?

„Hann er kjáni, einstaklega óvarkár maður. Ég hef þekkt hann síðan á níunda áratugnum. Hann hefur alltaf verið mikill Svíþjóðarvinur, hann telur best að vera hérna af öllum stöðum í heiminum. Fyrirmæli hans eru hins vegar þau núna við þessar örvæntingarfullu aðstæður Rússa að hóta, að hræða Svía,“ segir Malcolm Dixelius.

Viktor Tatarintsev var kallaður í sænska utanríkisráðuneytið að morgni miðvikudagsins 29. mars.

Tobias Billström utanríkisráðherra sagði að utanríkisráðuneytið kallaði rússneska sendiherrann til fundar til að mótmæla afdráttarlaust þessari augljósu tilraun til að hafa áhrif á skoðanir almennings.

Þá tók utanríkisráðherrann fram að Svíar einir tækju ákvarðanir um stefnuna í sænskum öryggismálum.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …