Home / Fréttir / Rússneskur risakafbátur ofansjávar við strönd Noregs – í fyrsta sinn á Eystrasalti

Rússneskur risakafbátur ofansjávar við strönd Noregs – í fyrsta sinn á Eystrasalti

 

Norska strandgæslan tók þessa mynd af rússneska Typhoon-kafbátnum undan strönd Noregs.
Norska strandgæslan tók þessa mynd af rússneska Typhoon-kafbátnum undan strönd Noregs.

Hvers vegna siglir Dmitríj Donskojs – stærsti kjarnorkuknúni kabátur heims – ofansjávar suður með allri strönd Noregs? Þannig spyr Thomas Nielsen, ritstjóri vefsíðunnar Barents Observer, á síðunni miðvikudaginn 19. júlí.

Ritstjórinn segir að risavaxni kafbáturinn af Thypoon-gerð hafi siglt frá Múrmansk mánudaginn 17. júlí og hafi ekki farið í kaf síðan.

Talsmaður norsku herstjórnarinnar segist ekki vita hvers vegna báturinn fari ekki í kaf. Rússneska flotastjórnin gaf engar skýringar á þessu sérkennilega ferðalagi.

Dmitríj Donskojs er þarna á ferð með kjarnorkuknúnu orrustubeitiskipi rússneska Norðurflotans, Pétri mikla. Skipin eru á leið til St. Pétursborgar þar sem þau verða hluti af sýningu rússneska flotans á hátíðisdegi hans laugardaginn 29. júlí.

Vladimír Pútín Rússlands verður í Kronstadt og fylgist með sýningunni.

Auk risakafbátsins og Péturs mikla verða tvö önnur herskip úr Norðurflotanum til sýnis á flotadeginum. Eldflaugabeitiskipið Ustinov marskálkur og stóra gagnkafbátaskipið Kulakov vara-aðmíráll. Þau eru þegar við akkeri í Kronstadt fyrir utan St. Pétursborg.

Rússneski hernaðar-álitsgjafinn Aleksandr Khrolenko segir að tilgangur ferða þessra öflugu skipa úr Norðurflotanum sé ekki aðeins að taka þátt í flotasýningu. Hann segir í grein í RIA Novosti:

„Á tíma vaxandi hernaðarlegs og stjórnmálalegs þrýstings frá Bandaríkjamönnum og NATO er flotasýning í St. Pétursborg ekki eina markmið þessarar flotasiglingar. Tilgangurinn er auðvitað einnig að sýna Norðmönnum, Þjóðverjum, Svíum, Pólverjum og ýmsum öðrum þjóðum mátt Rúuslands.

Eystrasaltssvæðið er orðið að æfingasvæði NATO.“

Khrolenko bendir á að Moskvumenn ógni engum heldur „bregðist aðeins við endalausri útþenslu NATO í austur“.

Þegar hann fjallar um viðbrögð Rússa við umsvifum NATO á Eystrasalti segir Khrolenko að „skilji sumir af félögum okkar ekki orð, kann rússneski flotinn að senda skiljanlegri skilaboð til þeirra“.

Khrolenko lýsir öflugum vopnabúnaði herskipanna og segir að orrustuskipin úr Norðurflotanum muni „lækka rostann í NATO“ og sýna að „Rússar víkja ekki frá stöðvum sínum á Eystrasalti“.

Nú um helgina hefst sameiginleg flotaæfing rússneskra og kínverskra herskipa á Eystrasalti.

Thomas Nielsen segir að norska freigátan Otto Sverdrup hafi tekið á móti kínversku skipunum á Norðursjó þriðjudaginn 18. júlí. Skipin héldu þaðan austur Eystrasalt en æfingin verður 21. til 28. júlí.

Ekki er vitað hvert er hlutverk Typhoon-kafbátarins og kjarnorkuknúna orrustubeitiskipsins í þessari æfingu, taki skipin þátt í henni.

Þetta er í fyrsta skipti frá því að Sovétríkin hrundu sem Typhoon-kafbátur siglir út af yfirráðasvæði Rússa í Norður-Íshafi. Typhoon-kafbáti hefur aldrei fyrr verið siglt inn á Eystrasalt.

Dmitríj Donskoj er 172 m á lengd, hann er einn eftir af sex kafbátum sem smíðaðir voru af þessari gerð. Hann flytur ekki lengur kjarnorkuvopn en er venjulega notaður sem skotpallur fyrir tilraunaskot flotana með nýjum langdrægum eldflaugum af Bulava-gerð. Kafbáturinn er tæplega 40 ára gamall og heimahöfn hans er Severodvinsk í Hvíta hafi.

Typhoon-kafbáturinn er knúinn áfram af tveimur 190 MW kjarnakljúfum og hefur aldrei verið smíðaður öflugri kafbátur.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …