
Að morgni þriðjudags 19. júlí sigldi rússneski kafbáturinn Severodvinsk um Dönsku sundin á leið frá Kólaskaga til St. Pétursborgar þar sem hann verður til sýnis á árlegum flotadegi í borginni.
Í frétt BarentsObserver um ferðir kafbátsins segir að á liðnu hausti hafi verið gerð tilraun með kafbátaútgáfu á nýju ofurhraðfleygu Tsirkon-stýriflaug Rússa og henni skotið frá Severodvinsk. Óljóst sé hvort slíkar flaugar séu um borð í kafbátnum nú þegar honum sé siglt inn á Eystrasalt. Þetta sé fyrsta för fjórðu kynslóðar fjölhæfu kjarnorkuknúnu kafbátanna af Jasen-gerð á þessar slóðir.
Danski herinn sagði á Twitter frá ferðum kafbátsins á leið frá Skagerak inn í Eystrasalt og að í fylgd með honum væru dráttarbáturinn Pamir og landgönguskipið Ivan Gren.
Norska herstjórnin vildi ekki upplýsa hvort kafbáturinn hefði siglt í kafi eða ofansjávar með strönd Noregs.
BarentsObserver segir að undanfarin ár hafi kafbátar á leið frá höfnum Norðurflotans til flotahátíðarinnar í St. Pétursborg siglt ofansjávar með strönd Noregs, líklega vegna þess að þeir hafi ekki verið búnir undir átök.
Undanfarin ár hafa þessir kafbátar verið sendir frá Kólaskaga til St. Pétursborgar um þetta leyti árs:
2017: Typhoon-gerð Dmitríj Donskoi
2018: Oscar-II-gerð Orel
2019: Oscar-II-gerð Smolensk
2020: Oscar-II-gerð Orel
2021: Oscar-II-gerð Orel, Borei-gerð Knjaz Vladimir og Akula-gerð Vepr
Severodvinsk (K-560) var tekin í notkun árið 2013 sem forystuskip kafbáta af Jasen-gerð. Hann er 139 metra langur og knúinn einum kjarnakljúfi, heimahöfn hans er Zapadnaja Litsa á Kólaskaganum fyrir austan Noreg.
Rússneski flotadagurinn er haldinn hátíðlegur árlega síðasta sunnudag í júlí.