Home / Fréttir / Rússneskur njósnaforingi sakar spænsku stjórnina um „harkalegt lögregluofbeldi“

Rússneskur njósnaforingi sakar spænsku stjórnina um „harkalegt lögregluofbeldi“

Sergei Narjíshkin, forstjóri rússnesku stofnunarinnar til njósna erlendis.
Sergei Narjíshkin, forstjóri rússnesku stofnunarinnar til njósna erlendis.

Sergei Narjíshkin, forstjóri rússnesku stofnunarinnar til njósna erlendis, hefur sakað spænsk stjórnvöld um „pólitíska kúgun“ gegn þeim sem börðust fyrir sjálfstæði Katalóníu í atkvæðagreiðslunni 1. október. Hann gagnrýndi einnig „harkalegt lögregluofbeldi“ á sumum stöðum þangað sem fólk kom til að greiða atkvæði.

Rússneski njósnaforinginn lét þessi orð falla fimmtudaginn 16. nóvember skömmu eftir að Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, staðfesti að tölvuþrjótar frá Rússlandi og Venesúela hefðu látið að sér kveða til að hafa áhrif í deilunni um framtíð Katalóníu.

Narjíshkin lýsti aðgerðum héraðsstjórnar Katalóníu sem „háleitustu aðferð til að kalla fram vilja almennings á lýðræðislegan hátt“. Orðin lét hann falla í ræðu á ráðstefnu til að minnast 30 ára afmælis Evrópustofnunarinnar. Stofnunin starfar innan vébanda Rússnesku vísindaakademíunnar og sinnir rannsóknum á evrópskum málefnum og leggur fram efnivið vegna mótunar utanríkisstefnu Rússa.

Í ræðunni vék Narjishskin á elítum Evrópu og sagði þær „enn og aftur stilla sér upp sem einstökum lýðræðislegum merkisberum. Í Katalóníu hefði það hins vegar gerst þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar – háleitustu aðferð til að kalla fram vilja almennings á lýðræðislegan hátt – ollu þeim óþægindum hefðu þær ekki aðeins neitað að viðurkenn þau heldur einnig beitt hvatamenn atkvæðagreiðslunnar pólitískri kúgun og þá sem studdu sjálfstæði harkalegu lögregluofbeldi.“

Í ræðu sinni nefndi Narjíshkin Katalóníu til sögunnar samhliða annarri gagnrýni á stefnu ESB. Til að gera lítið úr stefnu spænsku ríkisstjórnarinnar notaði hann sögulegan samanburð á framgöngu Spánverja nú og stjórnenda ungu Sovétríkjanna árið 1917 þegar stjórnendur þeirra veittu Finnum sjálfstæði – það hefði verið „rétt ákvörðun í sögulegu og sönnu lýðræðislegu ljósi“. Hann sagði að stjórnvöld á Spáni sem ættu aðild að ESB og teldu sig stjórna réttarríki hefðu hagað sér á annan hátt.

Narjíshkin starfaði með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í borgarstjóraskrifstofunni í St. Pétursborg á sínum tíma. Hann varð forseti neðri deildar rússneska þingsins, Dúmunnar, haustið 2016 áður en hann tók að sér að stjórna njósnum Rússa erlendis.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …