Home / Fréttir / Rússneskur lögamaður segir Pútín fyrst hafa logið sem forseti vegna Kursk-slyssins fyrir 15 árum

Rússneskur lögamaður segir Pútín fyrst hafa logið sem forseti vegna Kursk-slyssins fyrir 15 árum

 

 

Safnmynd af Kursk
Safnmynd af Kursk

Um þessar mundir eru 15 ár frá því að rússneski kjarnorkukafbáturinn Kursk fórst með 118 manna áhöfn. Þetta gerðist í ágúst árið 2000 og segir lögfræðingurinn Boris Kuznetsov að harmleikurinn marki þáttaskil í nútímasögu Rússlands. Hann segir að vegna slyssins og þess sem síðan gerðist hafi Vladimír Pútín Rússlandsforseti „logið í fyrsta sinn“.

Blaðamennirnir Inna Denisova og  Robert Coalson skrifa um þetta á vefsíðu Radio Free Europe miðvikudaginn 12. ágúst.

„Lygarnar hófust þegar Kursk sökk,“ segir Kuzentsov. „Vegna hvarfs Kursks hóf ríkisstjórnin að blanda sér í réttarfarsmál og réttarkerfið. Ríkisstjórnin hófst handa við að smala öllum fjölmiðlum undir forsjá sína. Öll aðförin að lýðræði í Rússlandi hófst með þessum atburði.“

Kuznetsov er 67 ára og hann var lögfræðingur fjölskyldna 55 manna úr áhöfn Kursks. Nú er hann pólitískur flóttamaður í Bandaríkjunum. Rússneska ríkisstjórnin hefur hafið sakamálarannsókn á hendur honum og gefið út alþjóðlega handtökuskipun af því tilefni. Hann segir að ákærunni sé ætlað að þagga niður í sér sem lögfræðingi. Hann er sakaður um að hafa ljóstrað upp ríkisleyndarmálum af því að hann sýndi fram á það fyrir rússneskum dómstóli að rússneska öryggislögreglan, FSB, stundaði ólöglegar hleranir á þingmanni.

Kursk sökk 12. ágúst árið 2000 við víðtækar flotaæfingar í Barentshafi. Þá hafði Pútín aðeins setið nokkra mánuði í embætti forseta í fyrsta sinn. Sjónvarp í Rússlandi var undir stjórn auðmanna og var upp á kant við stjórnvöld.

Sergei Dorenko, kunnur sjónvarpsmaður, gerði klukkutíma þátt um Kursk-slysið og var hann sýndur í október árið 2000 í ORT-sjónvarpsstöðinni sem náði til alls Rússlands en laut stjórn auðmannsins Borisar Berezovzkíjs. Eftir að hafa rakið mistök stjórnvalda í tengslum við harmleikinn á hafinu lauk Dorenko þættinum með þessari niðurstöðu:

„Sögunni um Kursk er ekki lokið. Við höfum aðeins varpað fram fyrstu spurningunum og niðurstöðunum. Meginniðurstaðan er að ríkisstjórnin virðir ekkert okkar neins – og svo lýgur hún. Og aðalatriðið er að ríkisstjórnin kemur aðeins svona fram við okkur af því að við líðum henni það.“

Pútín var greinilega brugðið þegar hann hitti ekkjur og fjölskyldur áhafnarinnar á Kursk hinn 22. ágúst 2000, enginn hræddist að gera hróp að honum og saka hann um vanhæfni eða eitthvað enn verra.

Kuznetsov segir að þessi fundur kunni að hafa verið „versta augnablikið“ í lífi Pútíns. Hann hófst þegar handa við að tryggja að hann stæði aldrei framar í sömu sporum og þá.

Kuznetsov minnist 15 ára afmælisins með því að senda frá sér aðra útgáfu bókar sinnar um málið. Heiti bókarinnar, Hann sökk, vísar til hinna frægu orða sem Pútín notaði þegar bandaríski sjónvarpsmaðurinn Larry King spurði hann hvað hefði orðið um Kursk. Í bókinni færir Kuznetsov rök fyrir því sem hann telur sök ríkisstjórnarinnar í harmleiknum. Hann lýsir einnig tilraunum Kremlverja til að hindra að hann geti dregið fram staðreyndir málsins.

Farið er með 133 binda skýrslu stjórnvalda um slysið sem trúnaðarmál og hið eina sem birt hefur verið úr henni er 4 síðna yfirlit sem kom fyrir sjónir almennings árið 2002.

 

Kuznetsov hafnar öllum samsæriskenningum um Kursk-slysið, að kafbáturinn hafi rekist á annan kafbát eða skip á haffletinum, að áhöfn NATO-kafbáts hafi sökkt honum eða hann hafi orðið fyrir slysaskoti frá öðru rússnesku skipi í æfingunum.

Hann segir að tiltækar hljóðmælingar og ummerki á braki úr Kursk sem náðist um 14 mánuðum eftir að hann sökk sýni að eldsneyti í tundurskeyti sem var verið að skjóta hafi sprungið og það hafi tveimur mínútum síðar leitt til risasprengingar sprengjuodda margra tundurskeytanna 10 um borð. Seinni sprengingin var svo öflug að hún kom fram á skjálftamælum víða í Evrópu og í Alaska.

Kuznetsov segir að ábyrgð rússnesku ríkisstjórnarinnar og hersins sé enn mikil og þar sé Pútín fremstur í flokki. Honum hafi sem æðsta yfirmanni hersins verið skylt að kynna sér alla þætti flotaæfingarinnar sem var hin mesta til þess tíma frá hruni Sovétríkjanna.

„Honum var skylt að hlusta á sérfræðinga og skýrslur yfirmanna og flotastjórnarinnar. Þetta allt bar honum að kynna sér en hann gerði það ekki,“ segir lögmaðurinn sem telur að hefði forsetinn gert það hefði hann meðal annars komist að raun um að aldrei fyrr hefði tundurskeyti af þessari gerð verið skotið frá Kursk. Honum kynni einnig að hafa orðið ljóst að aldrei hafði verið gerð tilraun með festingar á björgunarbúnaði við hlera á neyðarútgangi á Kursk. Margir sérfræðingar telja að ekki hafi verið unnt að opna hlerann vegna þess að skrokkur Kursk var þakinn efni sem átti að auðvelda honum að skýla sig fyrir hljóðbylgjum.

Að auki segir Kuznetsov að varðmaður við sónar um borð í orrustubeitiskipinu Pjotr Velikíj hafi heyrt og tilkynnt um sprengingu klukkan 11.28 f.h. hinn 12. ágúst. Hann staðsetti sprenginguna nákvæmlega á sama stað og Kursk var staddur.

Hvað sem þessu leið gerðist ekkert.

„Hvað áttu skipherra skipsins og yfirmenn æfingarinnar að gera?“ spyr Kuznetsov og svarar: „Þeir áttu að greina sprenginguna, ákvarða hvaðan hún kom og hvað olli henni. Þeir gerðu þetta ekki.“

Þess í stað þrengdist jafnt og þétt kostur hinna 23 sjómanna sem lifðu af fyrstu hörmungarnar og tókst að búa um sig í níunda hólfi hins laskaða kafbáts.

„Það var ekki fyrr en klukkan 23.30 sem lýst var neyðarástandi vegna Kursks,“ segir Kuznetsov. „Það höfðu 12 klukkustundir liðið. Þessar 12 stundir voru glataður tími.“

Flotaforingjar fullvissuðu Pútín um að þeir gætu sinnt björgunartilraunum án þess að þiggja aðstoð sem í boði var frá Bretum, Norðmönnum, Bandaríkjamönnum og öðrum. Það liðu fimm dagar frá því að sprengingin varð þar til Pútín þáði boð um aðstoð.

Kuznetsov segir að flotaforingjarnir hafi fullvissað Pútín um getu sína þótt þeir hafi við vitað að tækin til björgunar neðansjávar hefðu aldrei verið reynd í tengslum við Kursk. Hann segir:

„Staðreynd er að þau [tækin] voru smíðuð sérstaklega til að þau mætti nota vegna ólíkra gerða kafbáta, þar á meðal Kursk. Það var hins var aldrei, ekki einu sinni, gerð tilraun með þau – ekki þegar kafbáturinn var í reynslusiglingum eða á þeim [fjórum] árum sem kafbáturinn þjónaði flotanum og ekki fyrir þessa æfingu.“

Enginn var kallaður til ábyrgðar vegna Kursk-slyssins. Kuznetsov segir að Pútín hafi tekið „pólitíska ákvörðun“ um að vernda Vladimír Kurojedov, yfirmann flotans. Kurojedov bauðst til að segja af sér vegna slyssins en boði hans var hafnað og hann fór á eftirlaun árið 2005.

Pútín vék 13 foringjum úr störfum, þar á meðal Oleg Burtsov, yfirmanni kafabátaflota Norðurflotans. Allir fengu þeir þó fljótlega virðulegar stöður innan stjórnarráðsins eða í ríkisfyrirtækjum.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …