Home / Fréttir / Rússneskur landher fluttur frá Kólaskaga til Úkraínu – staðfestir lygi Pútins

Rússneskur landher fluttur frá Kólaskaga til Úkraínu – staðfestir lygi Pútins

Erik Kristoffersen, yfirmaður norska hersins,

Rússar hafa flutt mikið af landherafla sínum frá norðurslóðum til Úkraínu, segir Erik Kristoffersen, yfirmaður norska hersins, og telur að í því felist að nágranni Norðmanna í austri meti ástandið á norðurslóðum stöðugt. Rússar leggi þó mikla áherslu á kjarnorkuherstyrk sinn á Kólaskaganum og í norðurhöfum.

Rætt er við norska hershöfðingjann á norsku vefsíðunni High North News (HNN) föstudaginn 19. ágúst.

Þar segir að um þessar mundir séu fáir landhermenn á Kólaskaganum. Fjöldi hermanna hafi verið fluttir þaðan og úr herbúðum við landamæri Finnlands suður til Úkraínu.

Erik Kristoffersen segir túlka herflutninga Rússa á þann veg að þeir telji ástandið í norðri stöðugt og þess vegna þurfi þeir ekki halda úti landher þar, engin ógn steðji að landi þeirra. Á hinn bóginn séu þeir sannfærðir um að fælingarmáttur kjarnorkuvopna þeirra á þessum slóðum geri sitt gagn.

„Svona birtist mikla lygi Pútins; að NATO ógni Rússlandi. Þeir vita sem er að NATO hefur engin áform um að ráðast á Rússland. Þess vegna geta þeir leyft sér að flytja svona mikinn herafla til Úkraínu,“ segir yfirmaður norska hersins.

Hann segir að rússneski herinn í norðri hafi óvenjulega hægt um sig núna. Að vísu hafi flotinn og flugherinn látið að sér kveða en fylgst sé með ferðum rússneskra skipa og flugvéla af norska hernum. Norskar orrustuþotur séu þó sjaldnar sendar á loft vegna rússneskra hervéla en venjulega á þessum árstíma.

Erik Kristoffersen segir að aðild Finna og Svía að NATO sé ef til vill það mikilvægasta sem gerst hafi til að efla öryggi Noregs frá því að landið varð aðili að NATO árið 1949. Í fyrsta sinn verði nú unnt að fella varnarstefnuna og framkvæmd hennar að landfræðilegum aðstæðum í norðri.

Norðmenn hafa í marga áratugi skipulagt heræfingar með bandamönnum sínum innan NATO í Norður-Noregi undir heitinu Cold Response. Erik Kristoffersen telur að nú megi breyta heiti æfingarinnar í Nordic Response – Norrænt svar. Næsta stóræfing verður árið 2024 og er þá stefnt að fullri þátttöku herstjórna Finna og Svía við allan undirbúning og skipulag.

Hann segir mörg ný tækifæri í sjónmáli með aukinni samvinnu norrænu herjanna í norðri. Auðveldara en áður verði að færa reglulegar æfingar milli landa. Unnt verði að nýta flugvelli og samgöngutæki án tillits til landamæra, til dæmis járnbrautarlestina milli Gautaborgar og Narvíkur. Þetta sé allt til skoðunar ásamt yfirferð á viðbragðsáætlunum.

Í lokin spyr blaðamaður HNN: Breytist hlutverk Noregs sem NATO á norðurslóðum?

Erik Kristoffersen svarar: „Já, við verðum ekki lengur NATO í norðri. Noregur, Svíþjóð og Finnland verða NATO í norðri. Í mínum huga er allt jákvætt sem af þessu leiðir. Ég trúi því einnig að þess sé vænst að við samræmum varnir okkar vel.“

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …