Home / Fréttir / Rússneskur hermaður segist of veikburða til að vera í skotheldu vesti

Rússneskur hermaður segist of veikburða til að vera í skotheldu vesti

Rússneskur hermsaður í Mariupol í maí 2022.

Leyniþjónusta hers Úkraínu (GUR) birti á dögunum á samfélagsmiðlinum Telegram upptöku af hleruðu símtali rússnesks hermanns í Úkraínu við eiginkonu sína þar sem hann segist svo máttlítill vegna fæðuskorts að hann geti ekki verið í skotheldu vesti sínu.

Hann segir í samtalinu að eining hans í hernum hafi ekki fengið mat í þrjár vikur.

Fréttamiðlar sem segja frá efni upptökunnar taka fram að ekki sé staðfest hvernig staðið var að gerð hennar.

GUR birtir oft hljóðupptökur opinberlega og segir að þar megi hlusta á samskipti manna innan rússneska hersins. Samtölin eru venjulega birt til að sýna hve baráttuþrekið er þverrandi meðal rússnesku hermannanna í Úkraínu.

Sagt er frá þessu símtali hermannsins í bandaríska vikuritinu Newsweek. Þar segir hermaðurinn við eiginkonu sína að þar sem hann sé hafi um 100 rússneskir hermenn fallið „á fáeinum dögum“.

„Árásin misheppnaðist. Allt fór til helvítis. Allir voru drepnir. Allt sem við lögðum undir okkur hafa þeir nú þegar aftur á valdi sínu,“ segir hermaðurinn.

Síðan heldur hann áfram lýsingu sinni og segir að rússneska herstjórnin hafi hvorki séð liðinu fyrir mat né vatni um nokkurn tíma.

„Við höfum ekki fengið sendan mat í þrjár vikur. Við höfum ekki fengið mat í þrjár vikur. Í dag er kominn sjöundi dagur án þess að við fáum vatn,“ segir hermaðurinn.

Vegna fæðu- og vatnsskorts er haft eftir hermanninum að hann geti ekki notað skothelda vestið sitt:

„Fjandinn sjálfur! Ég hef núna farið úr skothelda vestinu. Ég hef ekki krafta til að vera í því. Það skiptir engu, þetta er tilgangslaust. Særðu hermennirnir eru ekki fluttir á brott.“

Hermaðurinn heldur áfram og formælir stjórnendum hersins og segir þeim vera „skítsama um okkur og þeim er skítsama um sóknina“.

„Þetta er allt og sumt. Ég er svangur og þyrstur. Svona er allt stríðið. Her landsins, her þjóðarinnar.  Herinn líkist landinu,“ segir hermaðurinn.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …