Home / Fréttir / Rússneskur flotaforingi hallmælir Norðmönnum vegna NATO-umsvifa

Rússneskur flotaforingi hallmælir Norðmönnum vegna NATO-umsvifa

 

Alexandr Moisevev, yfirmaður rússneska Norðurflotans.

Aleksandr Moiseyev, flotaforingi, yfirmaður Norðurflota Rússa, sagði í rússneska dagblaðinu Izvestiu fimmtudaginn 13. maí að hernaðarleg umsvif NATO í norðri væru ögrandi og ógnuðu öryggi á norðurslóðum (e. Arctic). Þá fullyrti hann að „þrýst“ væri á norsk stjórnvöld í þágu aukinna hernaðarumsvifa liðsafla NATO-ríkja sem ýttu undir átakalíkur á norðurslóðum.

Flotaforinginn minnti á að um langt skeið hefðu Rússar og Norðmenn þróað með sér gott nágrannasamband og tekist að leysa ágreiningsmál í samtölum sín á milli. Nýlega hefðu Bandaríkjamenn hins vegar tekið að líta á Noreg sem helsta stökkpall sinn inn á norðurslóðir. Þeir telji nú á norskt land framlínusvæði fyrir herafla sinn, eftirlitsbúnað og mannvirki sem megi nota bæði til hernaðarlega og borgarlega.

Aleksandr Moisejev var um borð kjarnorkuknúna beitiskipinu Pjotr Velikíj þegar hann ræddi við blaðamenn að sögn Izvestiu. Hann sagði að fjöldi herskipa frá NATO-ríkjum á Noregs- og Barents-hafi væri meiri núna en nokkru sinni síðan í síðari heimsstyrjöldinni segir í frásögn AP-fréttastofunnar af blaðamannafundinum.

Undir merkjum NATO væru heræfingar nú nær rússnesku landamærunum en áður og ferðum langdrægra bandarískra sprengjuvéla hefði fjölgað. „Aðgerðir af þessu tagi eru ögrandi og hafa neikvæð áhrif á öryggi á svæðinu,“ sagði Moisejev.

Rússneski Norðurflotinn stækkaði 7. maí 2021 þegar fyrsti fjölhæfi kjarnorkuknúni kafbáturinn af Jasen-M-gerð bættist við hann. Kafbáturinn er vel vopnum búinn m.a. með Oniks, nýrri flotaútgáfu af Kalibr-stýriflauginni. Unnið er að smíði sjö kafbáta af þessari gerð á Kóla-skaganum um þessar mundir.

Laugardaginn 15. maí hófst stærsta og flóknasta æfing með loftvarnabúnaði og varnarflaugum sem NATO efnir til í Evrópu (e. Exercise Formidable Shield). Þar taka þátt 15 herskip og meira en tugur hervéla frá 10 NATO-ríkjum og er æft á hafinu frá Skotlandi norður til Andøya, fyrir norðan heimskautsbaug undan strönd Norður-Noregs.

Æfingin stendur til 3. júní.

Eitt skipanna sem tekur þátt í æfingunni er bandarískur tundurspillir af Arleigh-Burke-gerð, USS Ross. Skipið hefur búnað sem gerir það að hluta af Aegis-eldflaugavarnarkerfinu.

Rússar hafa kvartað undan því að fjölgun ferða herskipa undir merkjum NATO í nágrenni Noregsstranda séu liður í þjálfunum vegna bandaríska eldflaugavarnarkerfisins.

USS Ross heimsótti Færeyjar laugardaginn 15. maí.

Piers Cazalet upplýsingafulltrúi hjá NATO sagði að markmið æfingarinnar Formidable Shield – ógnvekjandi skjöldur – væri að þjálfa herafla NATO-ríkjanna til að vinna saman í því skyni að „verja íbúa landa sinna fyrir raunverulegri ógn af eldflaugum“.

Meðal þess sem æft verður á næstu tveimur vikum er að áhafnir skipa finni og elti eldflaug sem fer á meira en 20.000 km hraða á klukkustund. Þá æfa áhafnirnar einnig varnir gegn alls kyns vopnum sem beint er gegn skipum.

 

Heimild: Barents Observer.

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …