Home / Fréttir / Rússneskur dómstóll sakar stríðshetju Úkraínu um morð á blaðamönnum

Rússneskur dómstóll sakar stríðshetju Úkraínu um morð á blaðamönnum

 

nadia-savchenko
Nadezda Savsjenkó, fyrrverandi herflugmaður frá Úkraínu, í réttarsalnum.

 

Nadezda Savsjenkó, fyrrverandi herflugmaður frá Úkraínu, hefur verið fundin sek í rússneskum dómstóli fyrir að drepa blaðamenn. Þetta kom fram mánudaginn 21. mars. Mannréttindahópar telja að pólitísk sjónarmið ráði niðurstöðu dómarans. Sjálf segir Savsjenkó að málatilbúnaðurinn sé „lygi“, sér hafi verið rænt af aðskilnaðarsinnum, hollum Rússum.

Í dóminum er vísað til þess að Savsjenkó hafi hlotið herþjálfun í Írak, hún hafi að eigin frumkvæði ákveðið að nýta leyfi sitt frá vinnu til að taka þátt í hernaðarátökum í suðausturhluta Úkraínu og gengið til liðs við Aidar-herdeildina undir stjórn Sergeis Melnisjúks í bænum Sjastje í Luhansk-héraði. Melnisjúk hafi skipulagt afbrotið. Hann hafi sem stjórnandi Aidar-herdeildarinnar lagt á ráðin um framkvæmd afbrotsins í samræmi við fyrirliggjandi áætlun og séð Savsjenkó fyrir vopnum og búnaði.

Talið er að það taki tvo daga að lesa dóminn eftir það verður tilkynnt um refsinguna.

Savsjenkó hefur hafnað öllum liðum ákærunnar á hendur sér sem „lygi“. Fyrr í þessum mánuði fór hún í hungurverkfall til að mótmæla málarekstrinum. Lögmaður hennar sagði við þýsku DW-fréttastofuna í ágúst 2015 að málið tæki stöðugt á sig „furðulegri svip“.

Lögmaðurinn hafnar þeirri fullyrðingu Rússa að Savsjenkó hafi farið á ólöglegan hátt inn í Rússland, þvert á móti hafi aðskilnaðarsinnar handtekið hana og afhent rússneskum yfirvöldum.

Savsjenkó sem er  hetja í heimalandi sínu lét af störfum í her Úkraínu árið 2014 til að slást í hóp sjálfboðaliða í Aidar-herdeildinni og berjast gegn aðskilnaðarsinnum í Luhansk.

Rússneskir saksóknarar segja að Savsjenkó hafi miðlað upplýsingum um dvalarstaði aðskilnaðarsinna við Luhansk til yfirvalda Úkraínu. Nokkrir féllu þegar stórskotalið Úkraínuhers gerði árás á staðina, þar á meðal tveir rússneskir blaðamenn.

 

Heimild: dw.de

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …