
Gervihnattarmyndir sýna 16 langdrægar sprengjuvélar á flugvöllum Rússa á Kólaskaga. Vélarnar eru á velllinum við Olenja flugherstöðina í um 200 km fjarlægð frá NATO-ríkjunum Finnlandi og Noregi. Þar er 3500 metra löng flugbraut sem er venjulega notuð af fáeinum gömlum Tu-22M sprengjuþotum og nokkrum An-12 herflutningavélum.
Hlutverk flugvallarins breyttist hins vegar á liðnu hausti þegar þangað var fyrst flogið Tu-160 langdrægum sprengjuvélum og í október þegar fleiri vélar af sömu gerð bættust í hópinn ásamt rúmlega 10 Tu-95 vélum.
Langdrægu sprengjuvélarnar sem nú hafa aðsetur fyrir norðan heimskautsbaug voru áður á Engels flugvelli skammt frá borginni Saratov. Völlurinn er aðeins um 600 km frá landamærum Úkraínu og var tveimur Tu-95 vélum grandað á honum í desember 2022 – leikur grunur á að um drónaárás hafi verið að ræða.
Laugardaginn 13. maí 2023 hröpuðu tvær rússneskar orrustuþotur í Brjansk héraði um 40 km frá landamærum Úkraínu. Sama dag fórust auk þess tvær Mi-8 þyrlur. Óljóst er hvort vélarnar voru skotnar niður.
Gervihnattarmyndirnar frá Olenja flugvelli sem birtar voru nú í vikunni sýna greinilega að langdrægu flugvélunum var ekki flogið norður til að bjarga þeim um aðeins stuttan tíma úr nágrenni við Úkraínu.
Öll flugvélastæði við flugbrautina eru notuð. Tvær Tu-160 vélar eru við suðurendann en Tu-95 vélarnar standa hlið við hlið á öllum öðrum stæðum sem rúma stórar flugvélar. Tu-22M vélarnar eru við norðvesturhlið vallarins. Sjá má eina Il-78 eldsneytisflugvél.
Vélarnar geta hafið sig til flugs með skömmum fyrirvara. Finnar og Norðmenn hafa því ekki langan fyrirvara vilji þeir senda sínar orrustuþotur í veg fyrir rússnesku vélarnar.
Heimild: Barents Observer.