
Breska varnarmálaráðuneytið segir að nýliðar í rússneska hernum hafi fyrirmæli um að ráðast á Úkraínuher með byssum og skóflum.
Frá þessu er greint í upplýsingum sem reistar eru á njósnum og birtust sunnudaginn 5. mars. Þar segir að vandræði Rússa séu mikil við víglínuna og að „varaliðar hafi hvorki líkamlega né andlega burði til að berjast“.
Rússar hafa lengi átt erfitt með að nálgast skotfæri. Úkraínumenn hafa ráðist á flutningaleiðir til rússneska hersins og eyðilagt margar birgða- og skotfærageymslur.
Rússneska stórskotaliðið hefur minnkað verulega stórskotahríð sína frá því sem var á fyrri stigum stríðsins. Talið er að það verði að spara skotfærin til að teygja átökin á langinn að kröfu Vladimirs Pútins forseta.
Njósnir sýna að fyrir bragðið eru bardagaaðferðir Rússa grimmdarlegar, í návígi og án þess að beitt sé fullkomnum vopnum.
Oleksandr Pavliuk, vara-varnarmálaráðherra Úkraínu, telur að aðgerðir Rússa líkist meira og meira hryðjuverkum. Þetta megi einkum rekja til þess hve þeim sé erfitt að brjótast í gegnum víglínuna sjálfa.
„Rússar verða sífellt örvæntari og grípa til örþrifaráða vegna þess að ekkert miðar við víglínuna sjálfa og aðgerðir þeirra líkjast meira og meira hryðjuverkum. Þeir reyna að verja hernumdu héruðin, drepa almenna borgara og eyðileggja grunnvirki,“ segir Pavliuk við Kyiv Independent.
Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) segir að rússneska hernum takist varla að umkringja bæinn Bakhmut í austurhluta Úkraínu.
„Rússneski herinn virðist hafa tryggt sér hæfilegt forskot til að færa sig í áttina að vissum hverfum í Bakhmut en honum hefur ekki enn tekist að neyða úkraínsku hermennina til að hörfa og getur örugglega ekki umkringt bæinn í bráð,“ segir ISW í daglegri skýrslu sinni um gang stríðsins sunnudaginn 5. mars.
Úkraínski herinn sagði 5. mars að hann hefði hrundið meira en 130 árásum óvinarins síðasta sólarhring og að fjöldi rússneskra hermanna, allt að 920, hefðu fallið. Í tilkynningunni kom ekkert fram um örlög Bakhmut. Sérfræðingar segja að gildi þess fyrir Rússa að ná bænum á sitt vald sé táknrænt án þess að hafa neina sérstaka hernaðarlega þýðingu.
Fréttir voru um að Sergei Sohigu, varnarmálaráðherra Rússa, hefði verið við vígstöðvarnar í austurhluta Úkraínu laugardaginn 4. mars en vestrænar fréttastofur sögðust ekki geta staðfest sannleiksgildi fréttanna.