Home / Fréttir / Rússnesku nettröllin hvöttu bandaríska blökkumenn til að sitja heima

Rússnesku nettröllin hvöttu bandaríska blökkumenn til að sitja heima

Pútín og „kokkur Pútíns“ sem rekur nettröllasmiðju í St. Pétursborg.
Pútín og „kokkur Pútíns“ sem rekur nettröllasmiðju í St. Pétursborg.

Leyniþjónustunefnd öldungadeildar bandaríska þingsins sendi mánudaginn 17. desember frá sér tvær skýrslur sem varpa ljósi á hvernig rússneskir útsendarar nýttu sér samfélagsmiðla til stuðnings Donald Trump í forsetakosningabaráttunni árið 2016.

Rússar nýttu sér ekki aðeins Facebook og Twitter heldur einnig Instagram, YouTube, Google+, Tumblr og Pinterest.

Þá vekur sérstaka athygli hve mikil áhersla var lögð á að hafa áhrif á blökkumenn úr röðum demókrata með því að hvetja þá til að sitja heima í stað þess að fara á kjörstað.

Rússar voru ekki einir um að beina spjótum sínum í þessa átt. Það gerði kosningastjórn Donalds Trumps einnig og birtist úttekt á því í Businessweek í október 2016. Barack Obama náði tvisvar kjöri sem forseti með því að hvetja blökkumenn til að fara á kjörstað. Kosningataktík Trumps var að hvetja hvíta til að kjósa en svarta til að sitja heima.

Hvort tilviljun réð því að Rússar og Trump voru hér á sömu braut eða hvort Rússarnir fetuðu í fótspor Trumps er ekki ljóst.

Í skýrslum nefndarinnar er vísað til gagna sem eigendur samfélagsmiðlanna létu þinginu í té. Þau þykja sanna það sem fulltrúar leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna sögðu í ársbyrjun 2017. Trump hafnaði þá öllum fullyrðingum í þessa veru.

Skýrslurnar styðja einnig viðvaranir bandarískra stofnana um að enn þann dag í dag reyni Rússar að hafa áhrif á skoðanamyndun með því að nota netið. Fyrst og síðast sýna þó skýrslurnar áherslu, dugnað og hugvitssemi rússnesku nettröllanna sem ryðjast inn á samfélagsmiðla i Bandaríkjunum og víðar.

Öllu er þessu stjórnað af fyrirtæki í St. Pétursborg sem nefnist

Internet Research Agency (IRA). Það hafði áður komið fram í ákæru Roberts Muellers, sérstaks saksóknara, gegn 13 nafngreindum starfsmönnum IRA. Í skýrslunum segir að frá útgáfu ákærunnar hafi Mueller orðið skotspónn þeirra Rússa sem dreifa óhróðri í netheimum.

Jevgenij Prigozjin á nettröllasmiðjuna IRA. Hann er vinur Pútíns. Frami hans frá því að reka pysluvagn til að verða milljarðamæringur vegna veisluþjónustu þykir með ólíkindum og hann er gjarnan kallaður „kokkur Pútíns“.

„Þessar nýju upplýsingar sýna af hve mikilli hörku Rússar reyndu skapa sundrung meðal Bandaríkjamanna með vísan til kynþáttar, trúar og hugmyndafræði og hvernig IRA vann að því að grafa undan trú á lýðræðislegum stofnunum okkar,“ sagði repúblíkaninn

Richard Burr, formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar, mánudaginn 17. desember.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …