Home / Fréttir / „Rússnesku lögin“ taka gildi í Georgíu

„Rússnesku lögin“ taka gildi í Georgíu

Þomghús Georgíu

Þing Georgíu samþykkti þriðjudaginn 28. maí að hafa að engu ákvörðun forseta landsins, Salome Zurabishvili, að neita að staðfesta lögin um „erlenda útsendara“, andstæðingar laganna kalla þau „rússnesku lögin“. Efnt hefur verið til mikilla mótmæla gegn lögunum utan þings. Þau stefna í hættu að landið verði áfram viðurkennt sem umsóknarríki um aðild að ESB.

Stjórnarþingmenn í flokknum Draumur Georgíu eru 84 og mynda þeir meirihluta í 150 manna þingi landsins. Einfaldan meirihluta, 76 atkvæði, þurfti til að ómerkja ákvörðun forsetans. Atkvæði féllu 84:4 þar sem flestir stjórnarandstæðingar yfirgáfu þingsalinn áður en gengið var til atkvæða.

Lögin fara nú að nýju til undirritunar hjá Zurabishvili. Hafni hún að rita nafn sitt kemur það í hlut forseta þingsins að rita undir lögin og sjá um birtingu þeirra.

Forsetinn ávarpaði nokkur hundruð mótmælenda fyrir utan þinghúsið og hvatti til þess að þingmennirnir 84 ættu ekki lokaorðin um lögin. Þeir mættu sín einskis í samanburði við mótmælendurna sem væru fulltrúar nýju Georgíu framtíðarinnar. Hvatti hún mótmælendur til að spara krafta sína til að beita sér af þunga í þingkosningum í október.

„Við verðum nú að gera allt sem við getum til að búa okkur undir 26. október og þá svörum við því sem gerist í dag. Eruð þið reið í dag? Reiðist, nú hefjumst við handa,“ sagði hún og hvatti til söfnunar undirskrifta í þágu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fréttaskýrendur segja hins vegar að ekki sé unnt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að hún verði að fara fram um alla Georgíu en nú sé 20% landsins hernumið af Rússum. Á hinn bóginn mætti kanna hug almennings í atkvæðagreiðslu sem ekki yrði bindandi.

Eftir að Draumur Georgíu hafði samþykkt lögin fordæmdi talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins ákvörðun þingsins og sagði hana ógna lýðræðisþróun landsins. Evrópusambandið lýsti einnig „miklum vonbrigðum“ yfir að ákvörðun forsetans var ómerkt.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …