Home / Fréttir / Rússnesku bullurnar á EM 2016 taldar gæta virðingar ættjarðarinnar styðja stefnu Kremlverja

Rússnesku bullurnar á EM 2016 taldar gæta virðingar ættjarðarinnar styðja stefnu Kremlverja

Rússneskar bullur í Marseille
Rússneskar bullur í Marseille

Athyglin hefur beinst að ógnvænlegri framgöngu ýmissa áhangenda landsliðs Rússa á EM 2016 í Frakklandi. Eftir leik við Englendinga í Marseille laugardaginn 11. júní kom til götuóeirða í borginni þegar Rússar fóru þar um, brutu og brömluðu og réðust á mann og annan.

Frönsk yfirvöld sögðu að þarna hefði verið „vel þjálfaður“ hópur af rússneskum fótboltabullum sem hefði haft að markmiði að skapa uppnám með „leiftursókn og leifturofbeldi“.

Í Rússlandi var atburðum í Marseille lýst á annan veg. Maxim Montin í borgarstjórn Moskvu sagði vandræðin mega rekja til skorts á viðbúnaði hjá frönskum yfirvöldum og ófullnægjandi skipulagi á leikvellinum. „Þið megið vera viss um að hefði þetta verið leikur milli Spartak og CSKA hefði ástandið verið enn ógnvænlegra hefði öryggisgæslan verið jafnlítil og í Frakklandi.“

Igor Lebedev, forystumaður meðal rússneskra knattspyrnumanna, gerði ekki aðeins lítið úr ofbeldi Rússanna í Marseille heldur hrósaði þeim: „Mér finnst ekki að áhangendurnir hafi gert neitt rangt með því að berjast, flott hjá ykkur strákar, haldið áfram,“ sagði hann á Twitter. Hann gaf frekari skýringar á framgöngu áhangendanna í samtali við life.ru: „Strákarnir stóðu vörð um heiður lands síns og létu ekki ensku áhangendurna svívirða ættjörð okkar. Við eigum að fyrirgefa og skilja áhangendur okkar.“

Frakkar hafa rekið Alexandei Shpríjgin, formann stuðningsmannasambands rússneskrar knattspyrnu, frá Frakklandi vegna framgöngu hans á EM 2016. Hann er þekktur fyrir ýmis undarleg ummæli. Nýlega sagðist hann aðeins vilja sjá „slavnesk andlit í landsliði Rússa“. Hann taldi jafnframt „eitthvað rangt“ við mynd af franska landsliðinu af því að þar mætti sjá „mjög mörg“ svört andlit.

Í Meduza, blaði í Riga sem gefið er út á ensku og flytur fréttir frá Rússlandi, segir að gerð hafi verið hróp að Vladimir Stognienko. kunnum rússneskum íþróttafréttamanni, í beinni útsendingu á Rossija 1 sjónvarpsstöðinni eftir að hann leiðrétti þáttarstjórnanda sem sagði að Bretar hefðu hafið ólætin í Marseille og verið með ögrandi tilburði. Eiginkona rússneska knattspyrnumannsins Pavels Pogrebnjak spurði Stognienko: „Styður þú kannski ekki Rússa? Menn eiga ekki að styðja landslið sitt á þennan hátt.“ Hlaut hún lófatak fyrir þessi orð. Íþróttafréttamaðurinn sagðist styðja Rússana „meira en nokkra aðra en menn ættu ekki að hika við að ræða vandamál sem kynnu að rísa“.

Sergeij Medvedev blaðamaður ritar miðopnugrein um EM 2016 í rússnesku útgáfuna á Forbes Mgazine. Hann skýrir það sem gerst hefur og hvernig um það er rætt í rússneskum fjölmiðlum með því að nota sömu gleraugu og þegar hann rýnir í almenna framgöngu Rússa á alþjóðavettvangi. Hann segir framgöngu rússnesku áhangendanna í Marseille falla vel að opinberri stefnu Rússlands og almennu viðhorfi Rússa eftir innlimun Krím.

Niðurstaða hans er að rússnesku fótboltabullurnar séu þátttakendur í „þeirri gerð af blendingsstríði sem nú nýtur svo mikilla vinsælda í [rússneskum] áróðri“. Hann ber saman atburðina í Frakklandi við það sem er í „Úkraínu [þar sem Rússar] eiga ekki í opinberu stríði heldur láta vel þjálfaðan hóp bardagamanna sjá um það […] og í Evrópu [þar sem Rússar] veðja á lýðskrum, sundrungu og klofning ESB“.

Heimild: EU East StratCom Task Force;

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …