Home / Fréttir / Rússneskt varalið á úreltum tækjum sent á vettvang

Rússneskt varalið á úreltum tækjum sent á vettvang

Gamlir sovéskir bryndrekar hafa verið ræstir fyrir varaliðið.

Rússneska herstjórnin flytur nú varaliða í áttina að Úkraínu til að styrkja sóknarafl sitt. Breska varnarmálaráðuneytið skýrir frá þessu á Twitter laugardaginn 9. júlí og vísar til leyniþjónustunnar.

Bretar segja að varaliðssveitirnar ráði yfir úreltum búnaði og hergögnum sem dugi ekki til aðgerða í fremstu víglínu. Þar sé meðal annars mikið af brynvögnum af gerðinni MT-LB sem hafi staðið í langtímageymslum hersins.. Ekki sé um fastskipaðar liðssveitir að ræða heldur hópa varaliða sem falið sé að starfa saman án þess að hafa stundað sameiginlegar æfingar.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti fullyrðir að Rússar hafi ekki enn beitt sér af alvöru í hernaði sínum í Úkraínu.

„Við höfnum ekki friðarsamningum. Þeir sem gera það á hinn bóginn ættu að átta sig á því að þeim mun lengur sem þeir fresta því verra verður fyrir þá að semja við okkur,“ sagði forsetinn í rússneska þinginu fimmtudaginn 7. júlí.

„Allir ættu að fá að vita að almennt erum við ekki einu sinni byrjarðir af neinni alvöru enn þá,“ og hann bætti við:

„Við höfum margoft heyrt að Vestrið vilji berjast við okkur þar til yfir lýkur. Það er harmleikur fyrir Úkraínumenn en svo virðist sem allt hnígi í þessa átt. Við heyrum að þeir vilja sigra á vígvellinum. Leyfum þeim að reyna.“

Landsstjóri í austurhluta Úkraínu sagði við Reuters-fréttastofuna laugardaginn 9. júlí að Úkraínuher veiti viðnam í Donbas-héraði til að hindra sókn Rússa til vesturs. Þá bárust sama dag tilmæli frá Kyív um að Vestrið sendi fleiri vopn með hraði til hers Úkraínu. Sprengjuárásir Rússa á bæi og þorp við víglínuna í Donbas séu mjög miklar auk þess sæki Rússar nú fram úr ýmsum áttum. Ekkert lát sé á hernaði Rússa.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …