Home / Fréttir / Rússneskt „skip smánar“ siglir norður með Noregi

Rússneskt „skip smánar“ siglir norður með Noregi

 

Rússneska flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov og fylgdarskip við strönd Brelands.
Rússneska flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov og fylgdarskip við strönd Brelands.

 

Rússneska flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov er nú á siglingu norður með strönd Noregs til heimahafnar á Kóla-skaga eftir að hafa verið um skeið á Miðjarðarhafi til þátttöku í hernaði Rússa í Sýrlandi. Með flugmóðurskipinu er orrustubeitiskipið Petr Velikíj og dráttarbátur.

Þegar rússnesku herskipin fóru um Ermarsund  miðvikudaginn 25. janúar sendu Bretar freigátuna St Albans til að fylgjast með ferðum þeirra auk eftirlits- og orrustuflugvéla.

Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, sagði vegna ferðar skipanna: „Við munum fylgjast náið með Admiral Kuznetsov þegar skipið læðupokast aftur heim til Rússlands; þetta er skip smánar sem gegndi því eina hlutverki að auka á þjáningar íbúa Sýrlands. Við fylgjumst með hverri hreyfingu þessara skipa við strendur Bretlands enda er það staðfastur ásetningur okkar að tryggja öryggi Bretlands.“

Um borð í St Albans er Merlin-þyrla og fullkomin ratsjár- og eftirlitsbúnaður. Náið samband er milli áhafnar skipsins og flugmanna í Typhoon-orrustuþotum sem eru á flugi við strendur Bretlands.

Talsmaður breska flotans sagði að Bretar héldu sig í hæfilegri fjarlægð frá rússnesku herskipinum án þess að missa sjónar á þeim með sjónaukum og ratsjám.

Rússneska fréttastofan RT sagði miðvikudaginn 25. janúar breskir stjórnmálamenn reyndu nú að slá sér upp með ummælum um rússnesku flotasveitina. Þar væri þó ekki um neitt nýmæli að ræða því að rússneski flotinn hefði verið virkur þátttakandi í stríðinu við hryðjuverkamenn í Sýrlandi síðan Bashar el-Assad Sýrlandsforseti hefði leitað eftir hernaðaraðstoð Rússa í september 2015.

Þá segir RT að Rússar hafi frá upphafi sagt afskipti sín af stríðinu í Sýrlandi í samræmi við alþjóðalög þar sem þeim hefði borist beiðni um aðstoð frá Sýrlandsforseta í baráttunni við íslamista. Vestræn ríki stæðu hins vegar að aðgerðum í Sýrlandi án heimildar ráðamanna í höfuðborginni Damaskus.

RT vitnar í Portsmouth News og segir að það kosti Breta 1,4 milljón pund (205 millj. ísl. kr.) að senda tundurspilli og freigátu á vettvang til að fylgjast með rússnesku skipunum. Þetta sé há fjárhæð sem komi til sögunnar þegar breski flotinn sé mjög aðþrengdur fjárhagslega eftir að varnarmálaráðuneytið hafi pantað eftirlitsskip að þarflausu. The Times segi að vegna skipanna fimm sem voru pöntuð frá BAE Systems hafi orðið til 500 milljón punda gat í fjárhag flotans.

 

 

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …