Home / Fréttir / Rússneskt rannsóknaskip kyrrsett í Skagen-höfn á Jótlandi

Rússneskt rannsóknaskip kyrrsett í Skagen-höfn á Jótlandi

Akademik Ioffe,

Dönsk yfirvöld, lögregla og dómari, hafa kyrrsett rússneska rannsóknaskipið Akademik Ioffe í Skagen-höfn nyrst á Jótlandi. Kyrrsetninguna má rekja til tilmæla frá fyrirtæki í Kanada vegna óuppgerðs máls við eiganda skipsins.

Í tilkynningu rússneska sendiráðsins í Kaupmannahöfn frá fimmtudeginum 4. nóvember segir að skipið hafi verið í Skagen-höfn frá mánudeginum 1. nóvember.

Akademik Ioffe er gert út af rússnesku Shirshov-hafrannsóknastofnuninni. Segir sendiráðið að lagt hafi verið hald á skipið til bráðabirgða vegna kröfu þriðja aðila.

Í frétt TASS segir að um borð í skipinu séu 38 manna áhöfn og 23 vísindamenn. Rússneska fréttastofan vitnar til Mariu Sjirovatko í sendiráðinu í Kaupmannahöfn sem segir að kanadíska fyrirtækið One Ocean Expeditions Ltd. hafi höfðað mál gegn útgerðinni vegna fyrri viðskipta sem sneru að Akademik Ioffe.

One Ocean Expeditions hefur aðsetur í British Columbia á vesturströnd Kanada og skipuleggur ævintýraferðir. Í tilkynningu sem fyrirtækið birti á vefsíðu sinni árið 2019 segir að árið 2008 hafi það leigt Akademik Ioffe og annað rússneskt rannsóknaskip til að sigla með viðskiptavini fyrirtækisins. Árið 2019 hafi skipin „skyndilega og óvænt“ verið kölluð til annarra verkefna. Sætti fyrirtækið sig ekki við slíkt samningsbrot.

Akademik Ioffe strandaði 24. ágúst við strönd Nunavut-héraðs í norðri í leiguferð fyrir One Ocean Expeditions. Kanadaher og strandgæsla björguðu rúmlega 160 manns, farþegum og áhöfn.

One Ocean Expeditions höfðaði skaðabótamál gegn eiganda Akademik Ioffe og krefst 6,14 milljón dollara af útgerðinni þar sem stjórnendur skipsins hafi ekki hagað ferð þess í samræmi við sjókort. Auk þessarar fjárhæðar er krafist 12,5 milljón dollara vegna annars kostnaðar í samskiptum fyrirtækisins við útgerð skipsins.

Blekkingariðja

Í fréttum dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV Nord var fimmtudaginn 4. nóvember sagt frá því að rússneskt herskip hefði laumulega og myrkvað siglt umhverfis Akademik Ioffe. Dönsk yfirvöld segja þetta ekki rétt.

Á hinn bóginn segir einnig frá því að fulltrúi danska utanríkisráðuneytisins hafi ekki getað skýrt fyrir blaðamanni norska blaðsins Aftenposten hvers vegna deplar í sjálfvirku stafrænu, opnu siglinga-skráningarkerfi skipa sýni að 104 m langa korvettan Stoikíj búin skotflaugum hefði verið á siglingu nokkra kílómetra frá Skagen.

Í dönskum fjölmiðlum voru leiddar að því líkur að depillinn sem sýndi korvettuna hefði verið settur inn í skráningarkerfið á þennan stað af tölvuþrjótum. Þeir væru gerðir út af rússneskum stjórnvöldum til að skapa hræðslu eða vandræði með fjölþátta (e. hybrid) aðgerðum. Yrði sífellt algengara að slíkum blekkingarbrögðum væri beitt á sjó og landi í von um að styrkja stöðu þess sem á í útistöðum við einhvern, ímynduðum eða raunverulegum.

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …