
Rússar sendu nýjasta njósnaskip sitt, Jantar, suður undir strönd Argentínu til að aðstoða við leit að týnda argentínska kafbátnum, ARA San Juan, sem hvarf 15. nóvember. Þótt enginn af 44 manna áhöfn kafbátsins sé talinn á lífi vilja stjórnvöld Argentínu finna bátinn og beita til þess öllum ráðum.
Um miðjan desember kom Jantar til hafnar í Buenos Aires til að taka vistir. Skipið var enn við leit að kafbátnum sunnudaginn 7. janúar. Leitað er á 125 til 1.050 metra dýpi, meðal annars með fjarstýrðum dverg-kafbáti.
Utanríkisráðuneyti Argentínu segir að sérfræðingar frá 12 löndum komi að leit kafbátsins frá Þýskalandi, Brasilíu, Kanada, Kólombíu, Spáni, Bandaríkjunum, Frakklandi, Noregi, Perú, Bretlandi, Urugvæ og Rússlandi.
Rússneski flotinn hefur gert Jantar út frá árinu 2015. Heimahöfn skipsins er í Sveromorsk á Kóla-skaga og er það í rússneska Norðurflotanum. Þótt skipið sé skráð sem hafrannsóknaskip er almennt litið á það sem njósnaskip. Af hálfu bandaríska flotans er talið að með búnaði skipsins megi valda tjóni á neðansjávarstrengjum.
Jantar er 108 m langt og 5.320 lestir. Knúið dísilvél og getur siglt á allt að 15 hnúta hraða, um borð er manna áhöfn. Skipið er móðurskip fyrir mannaða og ómannaða dverg-kafbáta sem senda má á í allt að 6.000 metra dýpi.
Í frétt BBC frá 3. janúar segir að rekja megi tilkynningu frá breska hernum í desember um að Rússar kunni að vinna tjón á mikilvægum neðansjávarstrengjum til ferða Jantar.
Igor Sutjagin, sérfræðingur um málefni rússneska hersins, búsettur í London, sagði Rússa geta hróflað við strengjum á sjávarbotni. Ekkert benti hins vegar til að þeir hefðu gert það.
„Það er erfitt að tengja sig inn á ljósleiðara – þar er bara ljósgeisli, engir rafþræðir,“ sagði hann við BBC. „Það væri miklu auðveldara að skera strenginn í sundur.“
Sutjagin sagði að í kalda stríðinu á áttunda áratugnum hefði bandaríski flotinn týnt hlustunar-streng af Sosus-gerð sem lá í Atlantshafi. [Slíkir strengir lágu frá suðaustur og suðvestur horni Íslands.] Sosus er skammstöfun á Sound Surveillance System – hljóðeftirlitskerfi.
Segir BBC að bandaríski herinn telji að sovéskur kafbátur hafi klippt á strengina. Sagt er að um svipað leyti hafi Bandaríkjamenn komið fyrir hlustunartækjum á sovéska neðansjávarstrengi í Okhotsk-hafi, bækistöð sovéskra kafbáta.
Í skýrslu fyrir rússneska þingið sagði að áhöfnin á Jantar gæti einmitt unnið að slíkum njósnaverkefnum með því að nota dverg-kafbáta á miklu dýpi. Þar kom einnig fram að Jantar hefði verið við störf skammt frá bandarísku flotastöðinni Kings Bay í Georgíuríki. Vitnað er í frétt bandaríska varnarmálaráðuneytisins um að Rússar hafi þarna safnað upplýsingum um bandaríska kafbáta.
Í Kings Bay er heimahöfn sex langdrægra kjarnorkukafbáta Bandaríkjanna af Trident-gerð, hver bátur getur borið 24 kjarnaflaugar.