Home / Fréttir / Rússneskt herskip skýtur að tyrkneskum fiskibáti á Eyjahafi

Rússneskt herskip skýtur að tyrkneskum fiskibáti á Eyjahafi

Rússneskt herskip siglir um Hellusund, í gegnum Istanbúl.
Rússneskt herskip siglir um Hellusund, í gegnum Istanbúl.

 

Rússneska utanríkisráðuneytið kallaði hermálafulltrúa við tyrkneska sendiráðið í Moskvu til viðræðna eftir að rússneskt eftirlitsskip skaut viðvörunarskotum að tyrknesku skipi á Eyjahafi sögðu rússnesk hermálayfirvöld sunnudaginn 13. desember. Atvikið kann að auka enn spennu í samskiptum ríkjanna tveggja en Tyrkir skutu niður rússneska orrustuþotu í síðasta mánuði.

Í tilkynningu Rússa sagði að skotið hefði verið viðvörunarskotum frá herskipinu Smetlivíj að ónefndum tyrkneskum báti á Norður-Eyjahafi til að komast hjá árekstri. Í tilkynningunni sagði orðrétt:

„Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir áhafnarinnar um borð í Smetlivíj tókst henni ekki að fá áhöfn tyrkneska fiskibátsins til að svara fjarskiptakalli rússnesku sjómannanna og hún brást hvorki við þegar beitt var gjallarhorni eða send ljósmerki. Þegar 600 m voru á milli skipanna var gripið til vopna í því skyni að forða árekstri.“

Talsmaður rússneska hersins sagði að tyrkneska skipið hefði breytt um stefnu og haldið aftur fyrir Smetlivíj.

Þegar síðast fréttist höfðu tyrkneskir embættismenn ekkert um atvikið að segja.

Í síðustu viku sökuðu Tyrkir Rússa um ögrun eftir að birtar voru myndir sem virtust sýna rússneskan sjóliða munda axlarhólk fyrir skotflaug þegar skip hans sigldi um Hellusund (Bosfórus) í gegnum Istanbul. Eftir að myndin birtist kölluðu tyrkneskir embættismenn rússneska sendiherrann í Ankara á sinn fund og bentu honum á að um hefði verið að ræða brot á alþjóðasamningum og skyldi það ekki endurtekið.

Heimild: WSJ

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …