
Ritað var undir fimm ára samning um flutning á gasi frá Rússlandi um Úkraínu til ESB-landa að kvöldi mánudags 30. desember, sólarhring áður en núgildandi samningstíma lauk.
Fulltrúar rússneska fyrirtækisins Gazprom og stjórnvalda í Úkraínu höfðu setið fimm daga á samningafundum í Vínarborg áður samið var og ritað undir skjöl því til staðfestingar.
Forsetar Rússlands og Úkraínu, Vladimir Pútín og Volodomíjr Zelemnskíj, hittust á fundi í París 9. desember. Þar var samið um að leysa ágreining vegna gasflutninganna og um fangaskipti sem fóru fram sunnudaginn 29. desember.
Zelenskíj sagði að Úkraínumenn fengju að minnsta kosti 7 milljarða dollara næstu fimm ár á grundvelli samningsins.
Rússar flytja alls 200 milljarða rúmmetra (bcm) af gasi til ESB-ríkja. Hlutdeild Gazprom á evrópska gasmarkaðnum er 36%.
Árið 2018 fluttu Rússar 86,8 bcm af gasi um leiðslur í Úkraínu til Evrópu. Árið 2020 verða þetta 65 bcm og síðan 40 bcm árin 2021 til 2024.