Home / Fréttir / Rússneskt gas áfram um Úkraínu

Rússneskt gas áfram um Úkraínu

Gasleiðsla í Úkraínu.
Gasleiðsla í Úkraínu.

Ritað var undir fimm ára samning um flutning á gasi frá Rússlandi um Úkraínu til ESB-landa að kvöldi mánudags 30. desember, sólarhring áður en núgildandi samningstíma lauk.

Fulltrúar rússneska fyrirtækisins Gazprom og stjórnvalda í Úkraínu höfðu setið fimm daga á samningafundum í Vínarborg áður samið var og ritað undir skjöl því til staðfestingar.

Forsetar Rússlands og Úkraínu, Vladimir Pútín og Volodomíjr Zelemnskíj, hittust á fundi í París 9. desember. Þar var samið um að leysa ágreining vegna gasflutninganna og um fangaskipti sem fóru fram sunnudaginn 29. desember.

Zelenskíj sagði að Úkraínumenn fengju að minnsta kosti 7 milljarða dollara næstu fimm ár á grundvelli samningsins.

Rússar flytja alls 200 milljarða rúmmetra (bcm) af gasi til ESB-ríkja. Hlutdeild Gazprom á evrópska gasmarkaðnum er 36%.

Árið 2018 fluttu Rússar 86,8 bcm af gasi um leiðslur í Úkraínu til Evrópu. Árið 2020 verða þetta 65 bcm og síðan 40 bcm árin 2021 til 2024.

Skoða einnig

Fyrrverandi NATO hershöfðingi kjörinn forseti Tékklands

Petr Pavel (61 árs) fyrrv. hershöfðingi, var laugardaginn 28. janúar kjörinn forseti Tékklands með 57,6% …