Home / Fréttir / Rússneskri ofurhraðflaug beitt í Úkraínu

Rússneskri ofurhraðflaug beitt í Úkraínu

Tilraunir með Kinzhal-ofurflaugar hafa verið gerðar frá rússneskum herskipum  á Barentshafi.

Rússneska varnarmálaráðuneytið tilkynnti laugardaginn 19. mars að nýrri ofurhraðfleygri skotflaug af Kinzhal-gerð hefði verið beitt í stríðinu í Úkraínu til að eyðileggja jarðhýsi með flaugum og skotfærum í vesturhluta Úkraínu.

Danski herfræðingurinn Claus Mathiesen við Forsvarsakademiet segir við Jyllands-Posten að þessu vopni Rússa sé ekki unnt að verjast.

Blaðið segir að ekki sé staðfest af óhlutdrægum aðilum að Rússar hafi í raun beitt flauginni en Claus Mathiesen telur sennilegt að svo sé í raun.

„Hér er um að vopn sem Rússar hafa þróað lengi og þeir hafa með stolti fullyrt að nú ráði þeir yfir því og það virki. Vopnið er bæði í flugvélum og skipum og á þann hátt hafa þeir lengi auglýst að þeir eigi þau og nú vilja þeir greinilega sýna að þeir geti notað þau,“ segir Mathiesen.

Ofurhraðfleygar flaugar ná að minnsta kosti fimm sinnum hraða hljóðsins. Vegna ofurhraðans er mjög erfitt að verjast flaugunum.

„Það er í raun alls ekki unnt að verja sig gegn slíkri flaug. Hraðinn á einmitt að sigrast á öllum vörnum, jafnvel með fullkomnustu gagneldflaugakerfum er gífurlega erfitt að til dæmis að skjóta flaugina niður,“ segir Claus Mathiesen.

Hann segir að vegna hátækninnar sem notuð sé til að smíða flaugina og gera hana mjög marksækna kosti hver flaug mikið fé. Sé ákveðið að skjóta flauginni sé skotmark hennar því valið að vel athugðu máli.

„Til dæmi getur stórt vopnabúr á nákvæmlega mældum stað verið fyrirtaks skotmark fyrir slíka flaug,“ segir Claus Mathiesen.

Rússneska RIA Novosti-ríkisfréttastofan sagði þetta í fyrsta skipti sem Kinzhal-flaug væri í beitt í því sem rússneskir miðlar kalla „sérstakri hernaðaraðgerð“ í Úkraínu.

Þegar Vladimir Pútin kynnti ofurhraðfleygu vopnin árið 2018 sagði hann þau „ósigrandi“.

Kinzhal-flaugar draga 1.500 til 2.000 km. Þær geta borið allt að 480 kg sprengju, að sögn 33 sinnum öflugri en sprengjan sem varpað var á Hiroshima árið 1945.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …