Home / Fréttir / Rússneskir útsendarar gerðu eiturefnaárásina í Salisbury

Rússneskir útsendarar gerðu eiturefnaárásina í Salisbury

Rússnesku útsendararnir.
Rússnesku útsendararnir.

Útsendarar njósnadeildar hers Rússlands stóðu að taugaeitursárásinni í Salisbury í Suður-Englandi 4. mars sl. Þeir beittu gömlu sovésku eitri, novitsjok, í tilraun til að drepa útlægan rússneskan njósnara, Sergei Skripal, sem leikið hafði tveimur skjöldum og dóttur hans Júlíu.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, sagði í neðri deild breska þingsins miðvikudaginn 5. september að breska ákæruvaldið teldi nægar sannanir fyrir ákæru á hendur tveimur Rússum fyrir árásina.

Mennirnir komu með flugvél til Bretlands undir nöfnunum Alexander Petrov og Ruslan Boshirov. Þeir „eru starfsmenn njósnadeildar rússneska hersins“ og þeir gerðu þetta ekki upp á sitt einsdæmi heldur „næstum örugglega“ með samþykki „háttsettra manna innan rússneska ríkisins,“ sagði breski forsætisráðherrann. Gefin hefur verið út evrópsk handtökuskipun vegna mannanna.

Mennirnir eru um fertugt og hafa verið birtar myndir sem náðust af þeim með öryggismyndavélum á ferð til og um England og þaðan með flugvél til Moskvu. Birtingu myndanna fylgdi ósk um að þeir gæfu sig fram við lögreglu sem hefðu séð til ferða mannanna.

Sue Hemming, yfirmaður lögfræðisviðs breska ákæruvaldins, sagði að ekki yrði farið fram á framsal mannanna frá Rússlandi þar sem rússneska stjórnarskráin heimilaði ekki framsal eigin borgara. Vildi svo ólíklega til að mennirnir yrðu á ferð utan Rússlands í Evrópu mætti handtaka þá þar.

Theresa May sagði að tilgangur Rússa með árásinni væri að senda þeim Rússum skilaboð sem byggju utan Rússlands en hefðu átt hlut að málum sem tengdust rússneska ríkinu.

Neil Basu lögregluforingi sagði að mennirnir tveir hefðu flogið frá Moskvu til London undir gervi-nöfnum 2. mars 2018. Þeir hefðu haldið frá Heathrow-flugvelli til Rússlands aðeins nokkrum klukkustundum eftir að þeir hefðu eitrað fyrir fórnarlömbum sínum.

Lögregla segir að eitrinu hafi verið smyglað til Bretlands í endurgerðu Nina Ricci ilmvatnsglasi. Illvirkjarnir báru eitrið á hún útidyra heimilis Sergeis Skripals í Salisbury.

Við rannsókn á hótelherbergi í London þar sem Petrov og Boshirov gistu fundust einnig leifar af novitsjok.

Af hálfu ráðamanna í Kreml er hafnað aðild Rússa að eiturárásinni. Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði að nöfn mannanna eða ljósmyndir af þeim kæmu ekki heim og saman við neitt hjá ráðuneytinu.

Unnt var að bjarga lífi rússnesku feðginanna og þau hafa bæði náð sér á strik eftir árásina. Þremur mánuðum eftir árásina veiktust tveir Bretar, kona og karl, af novitsjok-eitrun í nágrannabænum Amesbury.

Konan, Dawn Sturgess, 44 ára þriggja barna móðir, andaðist 8. júlí, viku eftir að hún veiktist af eitrinu. Félagi hennar, Charlie Rowley, var útskrifaður af sjúkrahúsi en sneri þangað að nýju vegna heilahimnubólgu og minnkandi sjónar.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …