Home / Fréttir / Rússneskir tölvuþrjótar réðust á Merkel

Rússneskir tölvuþrjótar réðust á Merkel

Angela Merkel í þýska þinginu.
Angela Merkel í þýska þinginu.

Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að fyrir liggi „ótvíræða sannanir“ fyrir því að rússneskir tölvuþrjótar hafi gert atlögu að henni með „forkastanlegum“ tilraunum til njósna.

Kanslarinn lét þessi orð falla eftir að Der Spiegel birti frásögn um að njósnastofnun rússneska hersins (GRU) hefði krækt í tölvubréf úr þingskrifstofu hennar árið 2015.

Þýska leyniþjónustan hefur hvað eftir annað sakað rússneska tölvuþrjóta um að njósna um þýska þingmenn og forystumenn í stjórnmálum. Öryggisstarfsmenn neðri deildar þýska, Bundestag, komust einnig að því í maí 2015 að innbrot hefði verið framið í tölvukerfi deildarinnar.

„Í hreinskilni sagt þá særir þetta mig: annars vegar vinn ég dag hvern að því að bæta samskiptin við Rússa og hins vegar liggja svo fyrir ótvíræðar sannanir um að rússneskir aðilar hagi sér á þennan hátt, þetta er spennusvæði,“ sagði Merkel við þingmenn miðvikudaginn 13. maí.

„Auðvitað áskiljum við okkur alltaf rétt til aðgerða, þar á meðal gegn Rússum,“ sagði kanslarinn einnig.

Í fyrirspurnatíma á þingi var Merkel spurð hvaða gögnum hefði verið stolið frá henni.

„Mér sýnist þeir hafi náð frekar óskipulega í allt það sem þeir gátu,“ svaraði hún.

„Ég fagna því mjög að rannsóknir hafa nú leitt til þess að sambands-saksóknarinn hefur lýst eftir ákveðnum einstaklingi,“ sagði Merlel án þess að skýra mál sitt frekar. „Ég lít þessi mál mjög alvarlegum augum.“

Í fyrri viku sagði Süddeutsche Zeitung að gefin hefði verið út þýsk handtökuskipun gegn Dmitrij Badin sem talinn er starfa fyrir GRU, njósnastofnun rússneska hersins. Bandarísk yfirvöld höfðu áður lýst eftir honum.

Rússar hafa hvað eftir annað neitað allri aðild að tölvuárásinni árið 2015 á þýska þingið. Þeir segja engan fót fyrir þessum ásökunum. Rússar neita einnig að hafa blandað sér í bandarísku forsetakosningarnar árið 2016 fyrir utan margvíslegar aðrar ásakanir um tölvuárásir á vestræn ríki og stofnanir.

Merkel sagði að „brenglun staðreynda“ væri einnig hluti „stefnu Rússa“. Hún sagði að öll rök mæltu með að reynt yrði að viðhalda góðum samskiptum við Rússa „en þetta auðveldar það auðvitað ekki“.

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …