
Rússneskir tölvuþrjótar halda áfram að styðja sjálfstæðissinna í Katalóníu og starfsemi þeirra kann að færast í aukana segir í nýrri skýrslu frá hugveitu á vegum spænska hersins: CESEDEN. Í skýrslunni segir að fyrir Rússum vaki að skapa sundrung og óstöðugleika innan Spánar með vaxandi spennu milli spænskra stjórnvalda og ráðandi afla í Katalóníu.
„Kremlverjar notfæra sér deiluna vegna Katalóníu til að grafa undan stöðugleika, þeir fylgja stefnu sem ætlað er að valda uppnámi á samfélagsmiðlum,“ segir í skýrslunni.
Með því að boða til héraðsþingkosninga í Katalóníu 21. desember 2017 vonaði Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, að spennan vegna Katalóníu mundi minnka. Niðurstaðan varð önnur og aðskilnaðarsinnar héldu meirihluta sínum á héraðsþinginu. Þeir hafa nú enn ögrað stjórnvöldum í Madrid með því að tilnefna Carles Puigdemont að nýju forseta héraðsstjórnarinnar þótt hann sé landflótta í Brussel.
Maria Dolores Cospedal, varnarmálaráðherra Spánar, fulltrúar ESB og NATO hafa vakið máls á grunsemdum um að Rússar séu með undirróður í Katalóníu.
Cospedal hefur til þessa ekki ásakað Rússa beint en í nóvember sagði hún að ríkisstjórnin vildi rannsaka hvernig þúsundir botta til stuðnings sjálfstæði Katalóníu sendu boð frá Rússlandi.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, hefur sakað Spánverja um að „skella skuldinni vegna eigin veikleika á Rússa“.
Umferð um samfélagsmiðla hefur aukist um 2000% síðan þjóðaratkvæðagreiðslan var í Katalóníu og þing héraðsins samþykkti ályktun um sjálfstæði síðla árs 2017. Eftir atkvæðagreiðsluna tók spænska ríkisstjórnin öll völd í héraðinu í eigin. hendur. Var þá gefin út skipun um að handtaka skyldi Puigdemont sem leitaði skjóls í Brussel.
Einn kafli skýrslunnar frá CESEDEN ber fyrirsögnina: Áhrif geópólitískra strauma á Spán. Segir spænska varnarmálaráðuneytið að það sé sammála niðurstöðu hans. Höfundur skýrslunnar, Josep Basques, stjórnmálafræðingur við Barcelona-háskóla, segir Rússa nota vandræðin á Spáni til að veikja NATO.
„Stjórnvöld í Moskvu eiga ekki sérstakra hagsmuna að gæta á Spáni þar sem landið er langt frá áhrifasvæði þeirra. Í Moskvu vona ráðamenn hins vegar að með því að stuðla að vandræðum í Katalónu takist þeim að veikja aðildarríki NATO,“ segir Basques. Sami leikur kunni að verða leikinn í öðrum Evrópulöndum þar sem aðskilnaðarsjónarmið minnihlutahópa setja svip á stjórnmálalífið.
NATO-sérfræðingur í nethernaði sagði á fundi með spænskri þingnefnd að kostnaður Kremlverja við að efna til tölvuárása á Spán væri aðeins örlítill miðað þann milljarð dollara sem þeir notuðu til stuðnings opinberum og óopinberum fjölmiðlum.
Talið er að uppsprettu boðanna sem send eru á samfélagsmiðla til stuðnings sjálfstæðissinnum í Katalóníu sé að finna í rússneskri „miðstöð nettrölla“ í húsi í úthverfi St. Pétursborgar. Þarna er fyrirtæki sem kallar sig Internet-rannsóknir og húsið er í eigu Evgeníjs Prigozhins, náins viðskiptafélaga Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
Hjá fyrirtækinu starfa nokkrir tugir tölvuþrjóta, bloggara og höfunda sem dreifa falsfréttum og greinum til stuðnings Kremlverjum. Þetta er haft eftir fyrrverandi starfsmanni þarna sem hefur rætt við vestræna fjölmiðlamenn.
Spánverjinn Manuel Huerta, sérfræðingur í netöryggi, segir Rússa geta sent frá sér hvers kyns fréttir, fréttaskýringar og pistla með mjög stuttum fyrirvara. Þeir reyni að móta umræður með því að fjalla allir um sama stefið og laða inn á þræði sína ósvikna þátttakendur sem þeir nýti til að auka þungann í eigin boðskap.
Blaðamenn í Katalóníu sem eru andvígir sjálfstæði héraðsins segja að skipulega hafi verið ráðist á vefsíður þeirra og netföng af aðilum í Rússlandi.
Meira en 30% af bottum sem styðja sjálfstæði Katalóníu eiga einnig rætur í Venesúela segir talsmaður spænska varnarmálaráðuneytisins. Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, náinn bandamaður Rússa, hefur ráðist á Mariano Rajoy fyrir að styðja andstæðinga stjórnar sinnar. Hefur Rajoy verið kallaður „grimmur einræðisherra“ í tölvuboðum frá Venesúela þar sem Katalóníumenn eru hvattir til dáða gegn honum.
Carles Puigdemont vill ekki stíga fæti á spænska jörð af ótta við að verða handtekinn. Þess vegna hefur hann nú í huga að stjórna Katalóníu með „fjarbúnaði“. Ætlunin er að nota Skype til að setja hann í embætti.
Oriol Soler, náinn fjölmiðlaráðgjafi Puigdemonts, hefur átt fund með Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Hann komst í fréttir í tengslum við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016 vegna þátttöku sinnar á samfélagsmiðlum í baráttunni gegn Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrata. Assange hefur staðið fyrir 40.000 tístum á Twitter til stuðnings sjálfstæði Katalóníu síðan hann hitti Soler í nóvember 2017. Soler segist hafa hitt Assange í sendiráði Ekvador í London til að ræða rafræna útgáfu.