
Norðmenn bönnuðu flutninga á rússneskum matarbirgðum til Svalbarða um landamærahliðið í Storskog skammt frá Kirkenes í Norður-Noregi. Bannið hefur reitt að minnsta kosti tvo rússneska þingmenn til reiði og hafa þeir nú hótunum í garð norskra stjórnvalda sem fara með stjórn mála á Svalbarða.
Í stað þess að fara með tvo 7 tonna gáma til Rússa á Svalbarða akandi um Noreg til Tromsø og þaðan með skipi til Svalbarða geta Rússar flutt þá beint frá Múrmansk til Svalbarða.
Rússneski þingmaðurinn Konstantin Kosastsjev segir að norsk yfirvöld reyni nú markvisst að halda matvælum frá rússneskum kolanámumönnum á Svalbarða. Þetta sé „ósiðlegt“ brot á mannréttindum. Þá segir hann Norðmenn brjóta gegn ákvæðum Svalbarða-sáttmálans sem veiti norskum yfirvöldum fullveldisrétt yfir eyjaklasanum svo lengi sem þau virði sáttmálann sjálf.
Þingamaðurinn var í nærri 15 ár formaður utanríkismálanefnda beggja deilda rússneska þingsins. Skömmu eftir að hann gagnrýndi Norðmenn tók annar þingmaður, Andrei Klishas, formaður stjórnlaganefndar þingsins, undir hana. Hann sagði að nú hefði vaknað stór spurning um fullveldisrétt Norðmanna á Spistbergen, það er Svalbarða. Tryggja yrði öryggi rússneskra borgara þar.
Rússar hafa margoft verið með horn í síðu Norðmanna á Svalbarða.
Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, svarar gagnrýni Rússa vegna flutninganna til Svalbarða nú að alls ekki sé reynt að hindra að birgðir berist til Rússa á svæði þeirra í Barentsburg. Á hinn bóginn hafi verið sett bann við ferðum rússneskra flutningabíla á norskum vegum. Rússneska ríkisflutningafyrirtækið Trust Arktikugol geti fundið aðrar leiðir en um Noreg. Ráðherran minnir einnig á að á Svalbarða gildi ekki sama bann við komu rússneskra skipa og í Noregi. Þá séu Norðmenn fúsir til að skoða undanþágu frá flugbanni. Þá hafi íbúar í Barentsburg aðgang að matarbirgðum Norðmanna á Svalbarða, samskipti á eyjunni séu almennt góð milli íbúa þar.
Sérfræðingar benda á að sáttmálans um Svalbarða gildi ekki um landamærastöðina í Storskog. Ef til vill séu Rússar að búa sig undir að hverfa undan skilmálum Svalbarða-sáttmálans. Ummæli þingmannanna sé í samræmi við annað sem berist frá Rússlandi um þessar mundir.
Heimild: BarentsObserver