Home / Fréttir / Rússneskir stríðsglæpir í Mariupol

Rússneskir stríðsglæpir í Mariupol

Frá sviðinni jörð i Mariupol.

Rússneski herinn hefur varpað sprengjum á listaskóla í úkraínsku hafnarborginni Mariupol þar sem um 400 manns höfðu leitað skjóls. Þetta segir í færslu yfirvalda í borginni á samfélagssíðunni Telegram sunnudaginn 20. mars. Þar segir einnig að skólahúsið hafi orðið fyrir tjóni og fólk kunni að vera grafið í rústum þess.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti segir að umsáturs Rússa um Mariupol verði minnst í sögunni vegna stríðsglæpa rússnesku hermannanna þar.

„Að gera þetta gegn friðsamri borg – sem hernámsliðið gerði – er hryðjuverk sem verður minnst um ókomnar aldir,“ sagði Zelenskíj á myndskeiði sem dreift var til þjóðarinnar snemma dags 20. mars.

Í loftárásum á Mariupol miðvikudaginn 16. mars jöfnuðu Rússar leikhús í Mariupol við jörðu en fólk hafði leitað þar skjóls. Borgaryfirvöld segja að 130 hafi verið bjargað en mun fleiri séu týndir í rústunum. Björgunarsveitir leita þar enn.

Áður höfðu Rússar gert sprengjuárás á fæðingardeild og barnaspítala í Mariupol.

Rússar gera ekkert hlé á ómannúðlegum sprengjuárásum sínum á skóla, leikhús og sjúkrahús þótt meginher þeirra í Úkraínu hreyfist varla vegna andstöðu heimamanna og hvers kyns heimatilbúinna vandræða rússnesku hermannanna. Rússar láta fordæmingu alþjóðastofnana og hjálparsamtaka sem vind um eyru þjóta og hafa að engu kröfur um tafarlaust vopnahlé.

Michail Vershinin, lögreglumaður í Mariupol, ávarpaði vestræna leiðtoga á myndskeiði sem AP-fréttastofan staðfesti að væri ófalsað. Þar sagði hann „börn og gamalmenni deyja“ í Mariupol „borgin er eyðilögð og þurrkuð út af yfirborði jarðar“.

Frá borgaryfirvöldum berast fregnir um að um 400.000 manns hafi í meira en tvær vikur mátt sæta innilokun í Mariupol. Fólkið leiti sér skjóls undan þungum sprengjuárásum sem hafi svipt það rafmagni, hita og vatni.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að fyrir liggi upplýsingar um 43 staðfestar árásir á sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir í Úkraínu. Þá segja Sameinuðu þjóðirnar að 3,3 milljónir hafi lagt á flótta frá Úkraínu.

Frá Hvíta-Rússlandi berast fréttir um að þar séu líkhús yfirfull af líkamsleifum rússneskra hermanna sem fluttar séu með leynd að næturlagi frá Úkraínu. Þá séu sjúkrahús í Hvíta-Rússlandi að sligast undan fjölda særðra rússneskra hermanna sem þangað leitar.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …