Home / Fréttir / Rússneskir sjálfboðaliðar sækja inn í rússneskt landamærahérað frá Úkraínu

Rússneskir sjálfboðaliðar sækja inn í rússneskt landamærahérað frá Úkraínu

Þessa mynd birtu rússnesku sjálfboðaliðarnir af þremur hermönnum sem halda á fána Úkraínu með áletruninni: Alþýðulýðveldið Belgorod.

Rússnesk yfirvöld lýstu mánudaginn 21. maí 2023 eigið landsvæði í Belgorod-héraði við landamæri Úkraínu sem „sérstakt löggæslusvæði gegn hryðjuverkum“. Viatstjelav Gladkov héraðsstjóri sagði þetta gert vegna íhlutunar hers „skemmdarverkamanna“. Hvatti hann almenna borgara til að yfirgefa árásarsvæðið.

Rússneskir sjálfboðaliðar sem berjast við hlið Úkraínumanna óku skriðdrekum og brynvörðum farartækjum inn í Rússland mánudaginn 21. maí og sögðust hafa náð nokkrum þorpum á sitt vald með innrásinni.

Á Telegram segist hópur Rússa sem kallar sig Frelsissveit Rússlands (RFL) og berst við hlið Úkraínumanna hafa staðið að aðgerðunum með Rússneska sjálfboðaliðahernum (RDK). Hóparnir hafa áður látið að sér kveða á þessum slóðum. Rússnesk yfirvöld skilgreina þá sem „hryðjuverkahópa“.

Á vefsíðu birtu sjálfboðaliðarnir mynd af þremur hermönnum sem halda á fána Úkraínu með textanum: Alþýðulýðveldið Belgorod.

Þá birti vefsíðan Baza sem er í tengslum við rússneskar öryggisstofnanir drónamyndir sem virðast sýna bílalest frá Úkraínu á leið að landamærastöð Rússa.

RDK sagðist hafa farið yfir landamærin og hvatti Rússa í landamærahéruðunum til að halda sig heima og „ekki veita andspyrnu“.

RFL birti myndskeið á Telegram þar sem Rússar eru hvattir til að rísa upp gegn Vladimir Pútin. „Það er tímabært að binda enda á einræði Kremlverja,“ sagði talsmaður sjálfboðaliðanna. „Sýnið hugrekki og óttist ekki vegna þess að við erum að koma heim.“

„Við göngum hús úr húsi […] Stór hluti íbúanna hefur yfirgefið viðkomandi svæði, við leggjum þeim til farartæki eigi þeir þau ekki,“ sagði héraðsstjórinn á samfélagssíðunni Telegram. Hann bætti við von sinni um „að her okkar ljúki verkefni sínu fljótt og útrými óvininum“.

Rússneska öryggislögreglan, FSB, tekst á við hryðjuverkamenn í Rússlandi. Hún stjórnar brottflutningi fólks af því svæði sem hún telur í hættu vegna skemmdarverka og tekur að sér að stjórna öllum fjarskiptum og samgöngum á svæðinu.

Rússnesk yfirvöld hafa ekki áður gripið til sambærilegra öryggisráðstafana á eigin landsvæði frá því að Vladimír Pútin forseti gaf fyrirmæli um innrásina í Úkraínu 24. febrúar 2022.

Viatstjelav Gladkov sagði að tveir íbúar í þorpinu Glotovo hefðu særst í sprengjuárás, þrír að auki í Grajvoron og einn í þorpinu Zamosité.

Úkraínumenn neita að hafa sent herlið inn í Belgorod og á rússneskt landsvæði.

Vladimir Pútin var upplýstur um þessa íhlutun sagði talsmaður hans, Dmitríj Peskov við blaðamenn. Taldi Peskov að með þessu vildu Úkraínumenn „beina athygli frá“ óförum sínum í bænum Bakhmut sem Rússar segja nú á sínu valdi eftir margra mánaða blóðug átök.

 

Wagner-málaliðar segjast fara frá Bakhmut fyrir 1. júní

 

Bardagarnir um Bakhmut hafa verið háðir milli þriggja herja, hers Úkraínu, hers Rússa og Wagner-málaliðanna. Rússar og Wagner-málaliðarnir standa saman og segjast nú hafa bæinn á sínum valdi sem Úkraínumenn segja ekki rétt.

Mánudaginn 22. maí var staðfest af hálfu Wagner-málaliðanna að þeir myndu hverfa frá Bakhmut á dögunum frá 25. maí til 1. júní og myndi her Rússa fylla í skarðið við brottför þeirra.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …