Home / Fréttir / Rússneskir öryggislögreglumenn eitruðu fyrir Navalníj

Rússneskir öryggislögreglumenn eitruðu fyrir Navalníj

 

Alexei Navalníj
Alexei Navalníj

Rússneska öryggislögreglan (FSB) er sökuð um að hafa eitrað fyrir Alexei Navalníj, helsta stjórnarandstæðingi í Rússlandi. Þetta segir í skýrslu sem birt var mánudaginn 14. desember.

Eitrað var fyrir Navalníj með taugaeitrinu Novitsjok í ágúst. Hann hefur sakað Vladimir Pútin Rússlandsforseta um að hafa gefið fyrirmæli um árásina en því hafnar skrifstofa forsetans.

Rannsóknarblaðamenn á vegum vefsíðunnar Bellingcat og rússnesku fréttasíðunnar The Insider tóku rannsóknarskýrsluna saman með aðstoð bandarísku CNN-fréttastöðvarinnar og þýska vikuritsins Der Spiegel. Þar kemur fram að FSB-menn hafi fylgst með Navalníj í þrjú ár.

Bent er á þrjá menn sem eltu Navalníj til Tomsk í Síberíu þar sem var eitrað fyrir honum. Í skýrslunni eru birt gögn úr síma og ferðaupplýsingar sem „gefa sterklega til kynna að eiturtilraunina í ágúst til að svipta Navalníj lífi megi rekja til æðstu manna innan Kremlar“.

Þá er einnig talið að áður hafi verið gerðar tilraunir til að eitra fyrir honum. Auk þess er skýrt frá því að kona hans, Julíja Navalníja hafi veikst á svipaðan hátt og eiginmaður hennar aðeins tveimur mánuðum áður en eitri var beitt gegn Alexei.

Eftir að skýrslan birtist sagði Alexei Navalníj á Twitter: „Málinu lokið.“ Lífi hans var bjargað þegar hann var fluttur frá Síberíu til Berlínar þar sem hann lagðist inn á Charité-sjúkrahúsið. Þaðan útskrifaðist hann í september 2020.

„Ég veit hver reyndi að drepa mig,“ skrifaði hann á Twitter. „Við vitum hvað þeir heita, við vitum starfsheiti þeirra og við erum með myndir af þeim.“

Í skýrslunni er bent á sveit FSB-manna sem sérhæfa sig í meðferð eiturefna – hernaðareiningu 34435.

Með því að kanna símanotkun og ferðagögn gátu skýrsluhöfundar rakið ferðir manna í þessari einingu og fullyrt er að þeir eltu Navalníj og samstarfsmenn hans árum saman.

Eftirlitið hófst árið 2017 þegar Navalníj kynnti áform sín um forsetaframboð. Eftir það var honum fylgt eftir í meira en 30 flugferðum á þremur árum.

Þrír menn eru nafngreindir í skýrslunni og sagt að þeir hafi elt Navalníj til Tomsk í Síberíu í ágúst þar sem honum var byrlað eitrið. Mennirir eru: læknarnir Alexeij Alexandrov og Ivan Osipov og Vladimir Panjaev.

Sagt er að með þeim hafi starfað fimm menn, sumir þeirra hafi einnig farið til Tomsk. Talið er að her-vísindamaðurinn Stanislav Makshakov offursti fari fyrir hópnum.

Samantektin hér að ofan er reist á frétt BBC um skýrsluna. Steve Rosenberg, fréttaritari BBC í Moskvu, segir rannsóknarskýrsluna nákvæma og mjög upplýsandi um stöðuna í Rússlandi undir forsæti Vladimirs Pútins.

Hún sýni að „leynilegar“ FSB-einingar séu ekki mjög „leynilegar“ þegar rannsakendur hafi aðgang að farsíma- og flugferðaskráningum. Þá sé þar að finna upplýsingar um hve gífurlegum fjármunum hafi verið varið til að fylgjast með Navalníj síðan 2017.

Að Navalníj sé enn á lífi þrátt fyrir allan þennan kostnað og umstang bendi til þess að rússnesku öryggisstofnanirnar séu ekki endilega upp á marga fiska.

Þótt Navalníj fullyrði að yfirvöldin hafi verið „staðin að verki“ sé þess ekki að vænta að Kremlverjar lyfti höndum til himins og segi: „Þið náðuð okkur.“

Sæti rússnesk yfirvöld gagnrýni heima eða erlendis séu ósjálfráð viðbrögð þeirra að neita öllu. Og halda áfram að neita sama hve mikið magn staðreynda sé kynnt til sögunnar.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …