Home / Fréttir / Rússneskir launmorðingjar í frönsku Ölpunum

Rússneskir launmorðingjar í frönsku Ölpunum

Rússneskir njósnarar fóru til Chamonix til að hreinsa af sér grun.
Rússneskir njósnarar fóru til Chamonix til að hreinsa af sér grun.

Fimmtán rússneskir njósnarar höfðu í fimm ár „bækistöð“ í frönsku Ölpunum og fóru þaðan í leynilega leiðangra og til launmorða í löndum Evrópu. Þetta var upplýst eftir að þýsk stjórnvöld ráku tvo rússneska stjórnarerindreka úr landi í vikunni eftir að saksóknarar sögðu „næg sönnunargögn“ fyrir hendi til að tengja rússnesk stjórnvöld við morð í miðborg Berlínar á fyrrverandi foringja uppreisnarmanna í Tjsetsjeníu.

Franska blaðið Le Monde segir að leyniþjónustustofnanir Breta, Svisslendinga, Frakka og Bandaríkjamanna hafi tekið saman lista með nöfnum 15 manna í 29155-deild GRU, njósnadeild rússneska hersins, sem allir lögðu leið sína um franska fjallabyggð í Haute-Savoie skammt frá landamærum Sviss og Ítalíu.

Þarna dvöldust þeir frá árinu 2015 til ársins 2018, einkum í bæjunum Evian, Annemasse and Chamonix. Þeir komu frá London, Moskvu, Spáni og Genf.

Nöfn þeirra og ferðir komust á skrá eftir sameiginlega athugun gagnnjósnastofnana þegar Rússar reyndu að drepa Sergei Skripal, landflótta rússneskan njósnara, í Salisbury á Suður-Englandi í mars 2018. Var eitrað fyrir Skripal og dóttur hans án þess að það yrði þeim að aldurtila. Rússnesku tilræðismennirnir tveir dvöldu um tíma í Haute-Savoie auk tveggja annarra sem lögðu á ráðin um aðförina í Salisbury.

Í Le Monde eru Rússar nafngreindir og sagt að fyrir utan Skripal-aðgerðina hafi þeir látið að sér kveða í Búlgaríu, Moldóvu, Svartfjallalandi og Úkraínu. Blaðið segir að vestrænir leyniþjónustumenn hafi ekki fundið neitt sem mennirnir skildu eftir sig í Frakklandi en staðfesting á dvöl þeirra hafi fengist með því að ræða við fólk á stöðum þar sem borðuðu, dvöldust og versluðu.

Í frétt sinni vitnar Le Monde í háttsettan mann innan frönsku leyniþjónustunnar sem segir að í Haute-Savoie hafi að öllum líkindum verið „skjól“ fyrir þá í 29155-hópnum sem áttu aðild að leynilegum aðgerðum í Evrópu.

Blaðið segir að ein kenningin sé sú að með því að dveljast í Ölpunum vonuðu útsendararnir til þess að þeir vektu ekki grunsemdir áður en til aðgerða þeirra kom. Þetta kynni að skýra hvers vegna þeir létu aldrei að sér kveða í Frakklandi.

Launmorð í Berlín

Þýska utanríkisráðuneytið kallaði rússneska sendiherrann í Berlín til fundar miðvikudaginn 4. desember og gaf honum fyrirmæli um að senda tvo starfsmenn sendiráðsins úr landi innan sjö daga. Þýsk blöð telja að um tvo rússneska njósnara sé að ræða.

Þýska ríkisstjórnin segir að mennirnir séu lýstir persona non grata til að mótmæla viljaleysi Rússa til samstarfs við rannsókn á morði á Georgíumanninum Zelimkhan Khangoshvili sem skotinn var til bana í garði í Berlín í ágúst 2019.

Sá sem liggur undir grun um morðið var handtekinn af lögreglu þegar hann reyndi að losa sig við byssu, sem talin er morðvopnið, í ána Spree sem rennur um Berlín.

Maðurinn bar rússneskt vegabréf með nafninu Vadim Sokolov. Þýskir saksóknarar telja nú sannreynt að þetta sé ekki rétt nafn mannsins. Lögregla segir „mjög líklegt“ að nafn hans sé Vadim Krasikov. Hann sé Rússi sem áður hafi verið leita vegna morðs á kaupsýslumanni í Moskvu árið 2013.

Frakkar hafna því að sendiráð þeirra í Moskvu hafi sýnt „kæruleysi“ með því að veita manninum 90 daga neyðar-vegabréfsáritun 29. júlí 2019 þegar hann gaf upp rangt heimilisfang. Hann fór um París á leið sinni til Berlínar.

Heimildarmenn Le Monde hjá leyniþjónustum Breta og Frakka sögðu að launmorðið í Berlín hefði verið framkvæmt að skipun frá stjórn Tsjetjseníu undir forsæti Ramzan Kadjirovs, vinar Moskvumanna. Rússneska ríkið hefði veitt aðstoð og aðstöðu til að unnt yrði að fremja ódæðið.

Le Monde segir að innan frönsku leyniþjónustunnar sé grunur um að fréttum af launmorðinu í Berlín hafi verið lekið af „pólitískum ástæðum“ sem megi rekja til þess að Emmanuel Macron Frakklandsforseti vilji nálgast ráðamenn í Moskvu. Blaðið bætir við að franskir leyniþjónustumenn segi að hjá þeim ráði enginn „barnaskapur“ gagnvart Rússum og líklega séu fáir í Evrópu sem fylgist jafnvel með rússneskum njósnurum og franskar gagnnjósnastofnanir.

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …