Home / Fréttir / Rússneskir kafbátar í GIUK-hliðið – Bretar fá P-8A kafbátaleitarvél

Rússneskir kafbátar í GIUK-hliðið – Bretar fá P-8A kafbátaleitarvél

https-_s3-us-west-2-amazonaws-com_the-drive-cms-content-staging_message-editor%2f1572392620115-800px-giuk_gap

Mesta kafbátaæfing Rússa á Norður-Atlantshafi í rúm 30 ár fer nú fram og teygir sig suður um GIUK-hliðið, það er hafsvæðið frá Grænlandi um Íslands til Skotlands. Norska ríkisútvarpið, NRK, flutti fyrstu fréttir um æfinguna þriðjudaginn 29. október og sagði að ætlun Rússa væri að komast óséðir eins langt í átt að austurströnd Bandaríkjanna og þeir gætu.

Mikill viðbúnaður er af hálfu NATO-ríkjanna vegna æfingarinnar og birtist hann meðal annars í aukunum umsvifum kafbátaleitarvéla við Ísland en á Keflavíkurflugvelli er aðstaða til að þjónusta þær. Í því skyni er meðal annars unnið að endurbótum á stóru flugskýli á öryggissvæði vallarins svo að það nýtist fyrir P-8A Boeing kafbátaleitarvélar bandaríska flotans. Stendur bandaríska varnarmálaráðuneytið straum af kostnaði við endurbæturnar en Landhelgisgæsla Íslands annast allan rekstur á öryggissvæðinu.

Bretar fá fyrstu P-8A þotuna

Miðvikudaginn 30. október var skýrt frá því að breski flugherinn hefði fengið fyrstu Poseidon P-8A eftirlitsflugvélina afhenta. Gerðist það við athöfn í Seattle í Washingtonríki þar sem Boeing hefur höfuðstöðvar sínar.

P-8A Posteidon kafbátaleitarvél.
P-8A Poseidon kafbátaleitarvél.

Vélarnarnar eru búnar nemum og vopnum til árása á kafbáta. Þá sinna þær einnig almennu eftirliti og leitar- og björgunarstörfum.

Fyrsta vélin hefur hlotið nafnið Pride of Moray. Heimavöllur vélarinnar verður í Lossiemouth í Moray-héraði nyrst í Skotlandi.

Frá árinum 2010 hafa Bretar ekki átt neinar sambærilegar eftirlitsvélar en þá lögðu þeir Nimrod-þotum sínum sem lögðu oft leið sína á Keflavíkurflugvöll og komu einnig við sögu í þorskastríðunum.

Bresku vélinni verður nú flogið til Jacksonville í Flórída þar sem áhafnir verða þjálfaðar en stefnt er að því að vorið 2020 hefji vélin eftirlit á Norður-Atlantshafi. Bretar áforma að haustið 2020 verði átta P-8A vélar í Lossiemouth. Þar er nú unnið að gerð aðstöðu fyrir vélarnar fyrir 132 milljónir punda (um 22 milljarða ísl. kr.) Nimrod-þoturnar voru í Kinloss um 22 km frá Lossiemouth.

Nýr rússneskur kafbátur

Rússneska TASS-fréttastofan skýrði frá því miðvikudaginn 30. október að gerð hefði verið tilraun með að skjóta langdrægri eldflaug frá nýjum kjarnorkuknúnum kafbáti af Borei-gerð sem formlega yrði hluti Norðurflotans fyrir árslok.

Kafbátur af Borei-gerð
Kafbátur af Borei-gerð

Um er að ræða langdræga kafbátinn Knjaz Vladimir og frá honum var skotið langdrægri Bulava-flaug segir í fréttinni sem höfð er eftir rússneska varnarmálaráðuneytinu. Báturinn var sjósettur árið 2017 og tilraunasiglingar hófust ári síðar.

Flaugin fór mörg þúsund kílómetra í austur frá Hvítahafi í áttina að Kamtsjaka-skaga í austasta hluta Rússlands. Sagði herinn að tilraunin hefði heppnast vel.

Um borð í Knjaz Vladimir verða allt að 16 langdrægar flaugar af RSM-56 Bulava-gerð, getur hver flaug borið fjóra til sex kjarnaodda.

Rússar ætla að smíða 10 nýja kafbáta af Borei-gerð fyrir árið 2027, fimm verða í Kyrrahafsflota þeirra og fimm í Norðurflotanum á Kólaskaga, austan landamæra Noregs.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …