Home / Fréttir / Rússneskir hermenn laumast frá Kerson – Úkraínumenn berjast áfram

Rússneskir hermenn laumast frá Kerson – Úkraínumenn berjast áfram

Úkraínskum hermanni innilega fagnað í Kerson.

Breska varnarmálaráðuneytið telur líklegt að Rússar hafi í þrjár vikur flutt hermenn sína frá Kerson. Þeir hafi laumast í borgaralegum klæðum úr borginni og leynst í straumi fólks sem Rússar knúðu til að flytjast búferlum.

„Brottflutningnum lauk á aðeins tveimur dögum eftir að hann var boðaður. Líklegt er að hann hafi hafist strax 22. október 2022 þegar útsendarar Rússa í Kerson tóku að hvetja fólk til að yfirgefa borgina,“ segir breska ráðuneytið.

Vikum saman hvatti leppstjórn Rússa íbúa ú Kerson til að hafa sig á brott, það væri þeim fyrir bestu til að forðast blóðug átök í borginni. Þá segir ráðuneytið:

„Það er raunhæft að ætla rússnesk hergögn og hermenn í borgaralegum klæðnaði hafi verið fluttir á brott með þeim 80.000 almennu borgurum sem sagðir eru hafa yfirgefið borgina undanfarnar vikur.“

Í fréttum frá Moskvu segir að rúmlega 30.000 rússneskir hermenn og tæplega 5.000 hertól af ýmsu tagi hafi verið flutt frá borginni. Brottflutningnum hafi lokið fyrir dögun föstudaginn 11. nóvember.

Úkraínumenn berjast áfram

Úkraínumenn ætla áfram að þrýsta á Rússa og hrekja þá úr landi sínu með hervaldi. Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði laugardaginn 12. nóvember á fundi leiðtoga Suðaustur-Asíulanda í Kambódíu að frelsisbaráttan mundi halda áfram.

„Við sigrum í orrustum á vígvellinum. Stríðið heldur samt áfram,“ sagði ráðherrann. „Ég átta mig á að allir vilja að stríðinu ljúki sem allra fyrst. Við viljum það svo sannarlega enn frekar en allir aðrir.“

Her Úkraínu lagði föstudaginn 11. nóvember undir sig hernaðarlega mikilvægu hafnarborgina Kerson við Svarta haf. Rússneski herinn hafði þá lagt á flótta frá borginni. Hún var eitt fyrsta herfang Rússa þegar innrás þeirra í Úkraínu hófst fyrir tæpum níu mánuðum.

„Við treystum á að þið aðstoðið okkur eins lengi og stríðið varir og Rússar kalla menn í her sinn og flytja vopn til Úkraínu,“ sagði Kuleba.

Sögulegur dagur

Í kvöldávarpi sínu föstudaginn 11. nóvember sagði Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti:

„Dagurinn í dag er sögulegur. Við erum að endurheimta suðurhluta landsins, við erum að endurheimta Kerson. Sérsveitirnar eru þegar í borginni.“ Þær myndu fyrst einbeita sér að því að leita að sprengjum sem Rússarnir hefðu skilið eftir til að granda sem flestum.

Mikill fögnuður braust út í höfuðborginni Kyív að kvöldi föstudags 11. nóvember. Borgarbúar og þeir sem leitað höfðu skjóls í borginni komu saman á Maidan-torginu í hjarta hennar til að lýsa gleði sinni.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti tilkynnti 30. september að stjórn sín hefði innlimað fjögur úkraínsk héruð í Rússland, þar á meðal Kerson.

Dmitríj Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sagði 11. nóvember að Kerson væri enn hluti „Rússneska sambandsríkisins“.

„Ekkert hefur breyst,“ sagði hann.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …