Home / Fréttir / Rússneskir herforingjar krefjast afsagnar Pútins vegna Úkraínu-umsátursins

Rússneskir herforingjar krefjast afsagnar Pútins vegna Úkraínu-umsátursins

 

Evgeníj Savostjanov, fyrrverandi hershöfðingi í rússnesku FSB-öryggislögreglunni.

Evgeníj Savostjanov, fyrrverandi hershöfðingi í rússnesku FSB-öryggislögreglunni, skýrir fyrir blaðamanni sjálfstæða nettímaritsins Republic í Moskvu hvers vegna hann styður nýlegt bréf frá Leonid Ivashov, formanni heildarsamtaka rússneskra herforingja (e. All-Russian Officers Assembly), þar sem hann krefst afsagnar Vladimis Pútins forseta og að fallið verði frá hernaðarlegri stigmögnun gagnvart Úkraínu.

Savostjanov segir að hann telji rússneska herforingja óttast að Pútin fái ekki nógu góðar upplýsingar frá rússneskum njósnastofnunum um erfiðleikana sem verði vegna hernaðar í Úkraínu og hann meti stöðuna í gegnum „rósrauð gleraugu“.

Savostjanov segist óttast að hörmungarnar fyrir Rússa af innrás í Úkraínu verði álíka miklar og þær sem Sovétmenn máttu þola vegna innrásarinnar í Afganistan.

Það hafi orðið meira tjón en ávinningur af hernaðaríhlutun Rússa á Krímskaga og í Donbas í austurhluta Úkraínu. Fyrir utan að minnka getu Rússa til að skapa nauðsynlegt jafnvægi í eigin þágu milli Kína og Vesturveldanna.

Á hinn bóginn viðurkennir Savostjanov að hann hafi hvorki beint samband við virka herstjórnendur né öryggislögregluforingja.

Hann telur ólíklegt að Rússar geri árás á Úkraínu, segir að líkurnar séu ekki nema 15%.

Savostjanov áréttar þá skoðun að NATO ógni ekki Rússum eins og málum sé háttað en strategísk vatnaskil yrðu ef Úkraína yrði aðildarríki NATO, einkum ef þar yrði komið fyrir skotflaugum sem yrðu aðeins fáeinar mínútur að ná til skotmarka í Moskvu.

Hann segir að núverandi umsátur Rússa um Úkraínu sé líklega tengt varnarráðstöfunum til að bregðast við stækkun NATO, ekki innrás í Úkraínu.

Heimild: meduza.io

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …